Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Carlito's Way
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eftir hina dýru hörmung Bonfire of the Vanities og hina ruglandi Raising Cane, tekst Brian De Palma að rétta úr kútnum með Carlito´s Way, litríkri mynd er gerist í 'Latino' mafíuheiminum um miðjan 8.áratuginn. Leikstjórinn er í góðum félagsskap, Al Pacino sýnir snilldar frammistöðu í aðalhlutverkinu, fyrrverandi 'dóp-boss' sem sleppur út úr fangelsi fyrr en áætlað var þökk sé tæknilegum göllum í máli hans (ætlun hans er að gerast heiðarlegur borgari). Sean Penn er frábær sem hin nördalegi lögfræðingur David Kleinfeld, sem frelsaði Carlito, en græðgi hans á eftir að valda skjólstæðingi sínum allmiklum vandræðum. Þeir sem standa upp úr úrvali aukaleikara eru John Leguizamo sem ofbeldisfullur nýgræðingur á leið upp metorðastigann, og Luis Guzman sem traustur aðstoðarmaður Carlito. Myndin hefur einnig sína galla, sér í lagi veikur söguþráður: maður getur ekki alveg tekið því trúanlegt að Carlito sé Kleinfeld svo trúr og traustur því augljóst er að Kleinfeld er brögðóttur og lævís. En gallar myndarinnar falla algerlega í skuggann af kostunum; mjög góðir leikarar; frábæri endurgerð á New York frá diskótímanum (í smáatriðum); og nokkur dæmigerð De Palma hasaratriði. Atriðin í 'pool-herberginu' og á járnbrautarstöðinni eru vel þess virði til að fyrirgefa De Palma gamlar syndir - jafnvel Bonfire of the Vanities.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Twister
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd er svo uppfull af tæknibrellum að aðstendendur myndarinnar virðast hafa gleymt söguþræðinum. Meðan ég horfði á hvirfilbylina þeyta beljum út um allar trissur, varð ég svo ruglaður að ég steingleymdi að fylgjast með um hvað myndin fjallaði. Smám saman, er ég byrjaði að reyna á heilann, áttaði ég mig á því hvers slags rugl og vitleysa þessi mynd er. Eini góði leikarinn í myndinni er hvirfilbylurinn, ekkert annað skipti máli. Vonandi verður aldrei gert framhald af þessari mynd, þó svo ég efist stórlega um að minni gæðum verði náð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Aliens
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Án efa besta vísindaskáldsaga sem kvikmynduð hefur verið. Sigourney Weaver snýr aftur sem Ripley í einni best heppnuðu framhaldsmynd í sögunni, sjö árum eftir að hafa leikið í frábæri mynd Ridley Scott, Alien. Kanadíski leikstjórinn James Cameron var áður búinn að gera garðinn frægan með mynd sinni The Terminator (1984), en með Aliens festi hann sig í sessi sem hasarmyndaleikstjóri í fremstu röð. Tæknibrellurnar í myndinni eru í hágæðaflokki þó svo að myndin hafi verið gerð 1986 en auðvitað eru tæknibrellur ekki nóg til gera góða mynd (sbr. ID4, Twister, Volcano, Armageddon,.......). Leikararnir standa sig allir mjög svo vel og má þar helst nefna Bill Paxton (The Terminator, True Lies, Titanic) og Michael Biehn (The Terminator, The Abyss) sem eru reglulegir 'gestir' í myndum James Cameron. Einnig leikur Paul Reiser (úr myndaflokknum Mad About You) lítið en mikilvægt hlutverk. Handritið er einnig skothelt, það er ekki bara uppfullt af adrenalín-atriðum, heldur fléttast inn í söguþráðinn mannlegt drama. Ekki vil ég kjafta frá meiru, en mæli eindregið með 'director´s cut' útgáfunni sem inniheldur nokkur mikilvæg atriði sem skýra betur út hvernig Ripley hegðar sér í myndinni. Þessi atriði voru því miður klippt út úr myndinn áður en hún fór í almenna dreifingu til að gera hana styttri og áhorfendavænni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
America's Sweethearts
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Fór á þessa mynd með því hugarfari að hún væri í stíl við Notting Hill. Verð að viðurkenna að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þótt ég sé mikill aðdáandi John Cusack. Myndin er frekar langdregin og full af klisjum, í rauninni getur hver sem er sem situr undir þessari mynd spáð fyrir um hvað muni gerast næst, svo útreiknanleg er hún. Myndin er auglýst sem rómantísk gamanmynd, en þegar maður flissar aðeins nokkrum sinnum af einstaka atriði þá er þetta ekki gamanmynd upp á marga fiska. Jafnvel Hank Azaria (sem talar meðal annars fyrir Moe, Apu og Chief Wiggum í Simpsons) er látinn tala með fáránlegum spænskum hreim, algerlega ófyndið. Sem sagt: ef ég hefði verið að horfa á þessa mynd í sjónvarpinu þá hefði ég slökkt á því og farið upp í rúm með góða bók í staðinn. Þessi eina og hálfa stjarna er fyrir leik (lítið aukahlutverk) Christopher Walken, hann klikkar ekki frekar en fyrri daginn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bringing Out the Dead
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Leigði þessa mynd á spólu um daginn. Ekki möguleiki að hún gæti verið leiðinleg, Martin Scorsese að leikstýra. En annað kom á daginn. Myndin var svo leiðinleg að ég virkilega íhugaði að hætta að horfa þegar 20 mínútur voru eftir, en hugsunin um að eitthvað áhugavert gæti gerst í lokin sem redda myndi myndinni hélt mér við sjónvarpið. En þetta hélt bara áfram að vera hugsun því myndin endaði eins og hún var allan tímann: drepleiðinleg. Scorsese virðist hafa reynt að skapa íburðarmikið og sláandi sjónarspil, en varúð, það eina sem hann skapaði var kaos. Því miður, en það bara virkar ekki. Myndin er einhvern vegin laus við allan söguþráð og er bara einfaldlega ruglandi og óáhugaverð. Ég hef ekkert á móti myndum sem er tiltölulega erfitt að fylgja eftir sögufléttunni, en í fullri hreinskilni, þá er ekki nógu mikið að gerast í myndinni sem kveikir forvitni manns. Mjög mikil vonbrigði. Er það virkilega satt að þessari mynd var leikstýrt af sama hæfileikaríka manni og gerði Goodfellas, Taxi Driver, Raging Bull, Cape Fear og Mean Streets??? Maður myndi að minnsta kosti ekki giska á það eftir að hafa horft á þessa mynd.......
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Independence Day
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

ID4 - tímanum væri betur varið í að spila tölvuleik. Hve mikla ánægju hefur þú af að HORFA á tölvuleik? Ekki mikla, myndi ég veðja á. Þetta er ástæða þess að umrædd mynd er jafnleiðinleg og raun ber vitni. Það er gersamlega engin tilfinning í þessari mynd - eingöngu gomma af tæknibrellum sem eiginlega urðu úr sér gengnar í sýnishornunum sjálfum. ID4 er dæmigerð Hollywood: peningaeyðsla fram yfir heilbrigða skynsemi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Being John Malkovich
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Leikbrúðustjórnandi haldinn tilvistarkreppu, dularfullt fyrirtæki á hæð 7 1/2, auðmjúk eiginkona óviss um kynferði sitt og svo auðvitað John Malkovich. Hrærið þessu öllu saman og útkoman er fullkomlega frumleg og ólýsanleg gamanmynd. Craig Schwartz (John Cusack) er fyrrnefndur leikbrúðustjórnandi sem heilshugar stundar sína list og er á kúpunni út af því. Eiginkona hans, Lotte (vel förðuð Cameron Diaz), byrjar að gefa í skyn að kannski ætti Craig að leita sér að nýrri vinnu. Hann ræður sig því hjá Lester Corporation sem er mjög svo undarlegur vinnustaður. Mr. Lester (Orson Bean) er skrýtið gamalmenni, starfsmenn ganga bognir í baki vegna lágrar lofthæðar og nota þarf kúbein á lyftudyrnar til að opna þær. En Craig finnur tvær ástæður til að elska vinnuna sína: Maxine (Catherine Keener) kveikir svo um munar í klofinu á honum, og 'inngangurinn', falinn bak við skjalaskáp, sem er nokkurs konar leið inni í heila John Malkovich (sem leikur sjálfan sig með ágætri kímingáfu). Hljómar undarlega? Maður verður einfaldlega að sjá myndina sjálfur til að upplifa snilldina. Þetta er fyrsta kvikmynd myndbandaleikstjórans Spike Jonze (sem hefur til dæmis lagt sitt að mörkum í Jackass á MTV), frábær frumraun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
High Fidelity
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Rétt eða rangt: Ef að lagið 'You´re Gonna Miss Me' með 13th Floor Elevator er spilað í upphafsatriði myndar, þá er sú mynd frábær? Ef svarið er 'rétt', þá muntu vafalaust elska þessa mynd leikstjórans Stephen Frear sem byggð er á bók snillingsins Nick Hornby (Fever Pitch & About a Boy) um tónlistarnörda og konurnar sem elska þá. Atburðarrásin á sér stað í kringum plötubúðina Championship Vinyl og eiganda hennar Rob (John Cusack) sem vægt til orða tekið er heltekinn af tónlist. Rob er gutti sem skiptist á að búa til topp 5 lista yfir opnunarlög á plötum og topp 5 lista yfir konur sem hafa sagt honum upp. Aðstoðarmenn hans, hin durgslegi Barry (Jack Black) og nördinn Dick (Todd Louiso), eru jafnvel enn skrautlegri í þröngsýni sinni; þeir myndu drepa viðskiptavin fyrir að bæta 'the' við nafn á lagi. Eins og vænta má er leiðin að sannri ást þyrnum stráð, en á þeirri leið kynnumst við óborganlegum persónum í litlum en mikilvægum hlutverkum: Tim Robbins sem viðkvæmur nýaldarbjáni, Catherine Zeta-Jones í hlutverki gamallar kærustu Robs og Bruce Springsteen sem hann sjálfur. Sérhver sem hefur einhvern tímann hefur verið sagt upp eða hefur sagt upp eða hagað sér eins og hálfviti getur samsamað sig við Rob. Ekki má gleyma að minnast á 'soundtrackið' úr myndinni sem er sneisafullt af gömlum góðum lögum. Ef hins vegar svarið við spurningunni að ofan er 'rangt', er sá möguleiki fyrir hendi að 2/3 hluti brandara myndarinnar fari fyrir ofan garð og neðan.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
All the President's Men
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Tímamótamynd sem sameinar þætti stjórnmálatrylla, rannsóknarmynda, ævisagna og blaðamannamynda. Aðalleikararnir tveir túlka hér fréttamenn Washington Post sem áttu sinn hlut í að kom upp um Watergate hneykslið. Dustin Hoffman leikur gyðinginn Carl Bernstein sem er þaulvanur í sínu fagi en Robert Redford er í hlutverki Bob Woodward sem er nánast nýgræðingur. Jason Robards, nýbyrjaður í hrinu af 'skapstyggur gamall sérvitringur' aukahlutverkum, hlaut Óskarinn ásamt handritshöfundnum William Goldman (hefur meðal annars skrifað handritið að Butch Cassidy and the Sundance Kid). Myndin slær upp fjöldan allan af fínum persónutúlkunum og sannfærandi hápunkti sem bætir upp fyrir lengd hennar (um það bil 140 mínútur). Fólk með áhuga á sjórnmálum og kvikmyndum ættu ekki að láta þessa mynd fram hjá sér fara.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Godfather: Part II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Framhöld voru byrjuð að vera helsta æðið í byrjun 8.áratugarins, svo það kom ekki á óvart að jafnvinsæl mynd og The Godfather gat af sér afkvæmi sem allt eins gat hafa verið arðrán á upphaflegu myndinni. Það sem er óvenjulegt, jafnvel einstætt, er að The Godfather: Part II í rauninni útfærir og skýrir nánar forvera sinn. Þessi mynd er bæði framhald og formáli fyrri myndarinnar; hún blandar saman sögu af valdatíð Don Michael Corleone (Al Pacino) og æsku föður hans, Vito, sem er hér snilldarlega leikinn af Robert De Niro. Coppola (leikstjóranum) var gefinn frjáls hönd við gerð framhaldsins og handbragð hans er sjánlegt hvarvetna, sérstaklega í kaflanum sem snýr að Vito. Að Al Pacino skyldi ekki fá Óskarinn fyrir túlkun sína á Michael er ofar mínum skilningi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei