Naked Gun 4 farin af stað

Margir hafa hlegið dátt yfir ævintýrum Lt Frank Drebin í Naked Gun myndunum þremur, sem eru troðfullar af sprenghlægilegum fimmaurabröndunum, en nú eru 24 ár síðan síðasta mynd var frumsýnd, The Naked Gun 33 1/3: The Final Insult. 

Tímaritið Little White Lies segir nú frá því að leikstjóri og einn höfundur myndanna, David Zucker, telji að kominn sé tími á endurgerð myndanna.  „Við erum að vinna að þeirri fjórðu núna,“ upplýsir hann í tilefni af 30 ára afmæli seríunnar, sem hóf göngu sína með frumsýningu fyrstu myndarinnar árið 1988. „Það eru liðin mörg ár frá síðustu mynd, en ég held að þessi húmor eigi enn mjög vel við. Fólk hlær enn að svona fimmaurabröndunum og persónum sem taka þá mjög alvarlega. Það er enginn búinn að gera svoleiðis síðastliðin 10 ár.“

En hvernig hyggst Airplane! leikstjórinn endurræsa flokkinn, og það án aðalleikarans Leslie Nielsen sem féll frá árið 2010?   Zucker er með svar á reiðum höndum. „Núna yrði það sonur Frank Drebin. Það er illur rússneskur glæpaforingi sem drap Frank Drebin og sór þess eið að drepa alla Drebina sem hann gæti fundið í símaskránni, þannig að sonur Frank og móðir hans Jane, sem Priscilla Presley lék, eru í vitnavernd.“

Og Zucker heldur áfram, „Sonur Drebin er ráðinn af bandarísku leyniþjónustunni CIA til að villa um fyrir Rússanum, til að reyna að koma lögum yfir hann. Hann flýgur til Evrópu og myndin verður einskonar grínútgáfa af The Bourne Identity, Mission: Impossible og James Bond.“

Samkvæmt Zucker þá er þessi fjórða mynd nú í undirbúningi, og handritshöfundurinn og heilinn á bakvið Police Academy grínseríuna, Pat Proft, situr sveittur við brandaraskrif. „Ég er að skrifa handritið með Pat og öðrum handritshöfundi, Mike McManus. Paramount framleiðslufyrirtækinu finnst fyrsta uppkast frábært, og hafa beðið um annað, þannig að þetta er í vinnslu,“ segir Zucker.

En hver gæti fyllt skarð Leslie Nielsen?  Zucker er með nokkrar hugmyndir. „Við þurfum ekki að hafa samskonar leikara, við gætum fengið grínista í hlutverkið. Okkur hefur dottið í hug maður eins og Bill Hader ( Trainwreck ) . Mér finnst hann stórkostlegur. Hann getur verið aðalleikari og grínisti á sama tíma.“

Áður hafa borist fregnir af nýrri Naked Gun mynd, og þá með Ed Helms í aðalhlutverki, þannig að það er best að fagna ekki of snemma …