Enn ein Jurassic Park?

Næsta föstudag opnar Jurassic Park 3 í Bandaríkjunum og þá kemur í ljós hvort áhugi almennings á risaeðlunum ógurlegu er nægilegur til þess að réttlæta enn eitt framhaldið. Nú hefur komið í ljós að allir aðalleikararnir í myndinni samningsbundu sig til að leika í Jurassic Park 4 þegar þeir gerðu samninginn fyrir þriðju myndina. Sam Neill hefur þegar sagt að hann sé reiðubúinn og æstur í annað framhald þó hann skilji reyndar ekki hvernig væri á trúverðugan hátt hægt að fá persónu hans til þess að snúa aftur. Ekkert hefur heyrst frá hinum leikurunum um hvernig þeim lítist á, en stærstu nöfnin þeirra á meðal eru William H. Macy ( Fargo ) , Téa Leoni ( Deep Impact ) og Laura Dern ( Dr T. and the Women ). Universal kvikmyndaverið, sem framleiðir myndina á síðan réttinn á 3 myndum í viðbót, og alls yrðu það þá 6 myndir ef allar yrðu gerðar en það eina sem ljóst er í stöðunni er að ef af framhöldum yrði myndi Joe Johnston ( October Sky , Jumanji ) leikstýra áfram.