Viðtalið – Ragnar Bragason

Ef ekki væri fyrir Vaktir Ragnars Bragasonar, þá myndum við íslendingar
ekki heyra "Já sæll!" eins oft í kringum okkur og við höfum gert
undanfarin tvö ár. Ragnar hefur komið langa leið með lykilpersónur sínar
úr Nætur-, Dag- og Fangavaktinni og nú fer að líða að lokasprettinum.
Kvikmyndin Bjarnfreðarson (sem er frumsýnd annan í jólum) tekur við þar
sem Fangavaktin endaði en fjallar einnig um æskuár George Bjarnfreðarsonar
og hvernig hans uppeldi gerði honum að einstaklingi sem íslenskir
áhorfendur elska að hata.

Ég tók Ragnar í smá einkaviðtal og spurði hann út í þessa þætti (ásamt
kvikmyndinni auðvitað) sem hafa heldur betur fallið í kramið hjá fólki hér
á klakanum. Ég nýtti sömuleiðis tækifærið og kafaði út í kvikmyndasmekkinn
hans, eins og hefur fylgt undanförnum viðtölum.

—————————————————————

Er það ekki bara nokkuð góð tilfinning að heyra meirihluta þjóðarinnar
vera stöðugt að vitna í frasana hans Ólafs?

Það getur nú verið þreytandi líka, en jú, það er gaman að vita til þess að
eitthvað sem maður skapar skuli hafa áhrif í samfélaginu. En það er
takmarkað sem maður hefur þolinmæði fyrir "Já sæll"

Hver er svona helsti munurinn á því að leikstýra Vaktar-seríunum og
bíómyndinni?

Stærsti munurinn er sá tími og sá peningur sem maður hefur úr að spila.
Sjónvarpsefni er unnið miklu hraðar. Í kvikmynd er allt stærra í vöfum,
fleiri í tökuliði osfrv. En svona verklega er þetta afskaplega svipað. Þetta
eru bara persónur og saga sem maður er að segja. Ég finn ekki mikinn mun.

Þetta er allt sama crew-ið, er það ekki? Eflaust allir orðnir vel nánir
síðan þið byrjuðuð að taka upp í bensínstöðinni fyrir rúmum tveimur árum.

Það er að hluta til sama crew á Bjarnfreðarson 2009 og var með mér í Börn og
Foreldrar 2005. Sami tökumaður, Bergsteinn Björgúlfsson, aðstoðartökumaður
og B-camera Árni Filippusson, sami hljóðhönnuður Huldar Freyr Arnarsson,
sama tónskáld Pétur Ben, Sami klippari Sverrir Kristjánsson osfrv. Það góða
við að vinna með sama fólkinu er að það skapast samhljómur og færri orð þarf
til að koma hugsunum og skilaboðum á framfæri. Svo er nánast búið að vera
sama crew frá Næturvakt, Helga Rós V.Hannam búingahönnurður, Áslaug Dröfn
Sigurðardóttir förðun, Harpa Þórsdóttir framleiðandi og aðstoðarleikstjóri
ofl. Þetta er mjög samstilltur hópur og öll erum við góðir vinir. Allt þetta
fólk er frábært í samstarfi. Og ég mun vinna með þeim örugglega að næsta
verkefni líka.
 

Þrátt fyrir að aðalleikararnir eigi þátt í handritinu, er mikill spuni hjá
þeim á setti?

Það er engin spuni á setti. Hver setning er meitluð í handriti. Við erum
búin að spinna allt á handritsstigi og í undirbúningi. Þannig að þegar kemur
að tökum er allt fastmótað. Sem er ögn frábrugðið frá því þegar ég gerði
Börn og Foreldra, þar sem allur hinn talaði texti var spunnin í tökum.

Áttu þér einhverja uppáhalds setningu úr hverri seríu?

Hmmm… Já, það eru nokkrar sem koma upp í hugann.
Næturvaktin: (Daníel við Ólaf) Þú ert farinn að laktósa!
Dagvaktin: (Georg við Ólaf) Hvar ertu með liminn Ólafur?!
Fangavaktin: (Ólafur við Þröst Hjört) Þröstur Hjörtur..? Áttirðu að vera
tvíburar?
Bjarnfreðarson: (Afi Geir við fjölskyldu sína) Jólin eiga ekki að snúast um
kaupmennsku, þetta er fjölskylduhátíð!
 

Klassíska spurningin: Hvort laðast Vaktirnar meira í átt að gríni eða
drama að þínu mati? Mundirðu kannski kalla þetta "dramedy?" eins og sagt
er á góðri ensku.

Vaktirnar eru drama. Málið er bara að persónurnar eru það afgerandi og
skemmtilega gallaðar að það gerist margt fyndið.


Hvað tekur síðan við hjá þér núna þegar Georg, Ólafur og Daníel eru að baki?

Ég er að hugsa um að fara í Stýrimannaskólann. En er ekki alveg búin að gera
það upp við mig.

Svona á góðum degi, heima í stofu, hvort ertu meira fyrir "Action," drama
eða grín?

Ég er nú alæta á kvikmyndir, sama hvaða tegund það er. Ef myndin er góð, þá
er myndin góð. En ég myndi segja að ég horfi mest á drama og
hryllingsmyndir.

Hvaða kvikmynd geturðu alltaf horft á aftur og aftur og hvers vegna?

Það eru nokkrar myndir sem einhverra hluta vegna þola endurtekið áhorf.
Boogie Nights eftir Anderson er ein. Shining eftir Kubrick er önnur. Allur
Billy Wilder er klassík, horfi reglulega á Some Like It Hot og The
Apartment. Annie Hall, Night of the Hunter… Ef myndin er tímalaust klassík
þar sem maður sér sífellt eitthvað nýtt, þolir hún endalaust áhorf.
 

Áttu þér einhverja mynd sem þú horfðir mikið á í æsku en skammast þín í
dag fyrir að fíla?

Skammast mín ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir neitt sem ég hef gert.
Kvikmyndir, eins og tónlist og tíska tekur oft undarlegar beygjur. Ég held
að ég hafi borgað mig fjórum sinnum inn á Footloose í Háskólabíó. Svo horfði
ég á þá mynd um daginn og áttaði mig á því að hún er bara mjög góð, fyrir
utan sérkennileg atriði þar sem persónur dansa tilfinningar sínar í
siluettum! Cheech & Chong er kannski ekki gæðaefni en ég held að ég hafi séð
kvikmyndina Things Are Tough All Over oftar en allar aðrar myndir. Það var
bara síendurtekið efni í öllum partíum hjá okkur æskuvinunum á tímabili.
 

Hefurðu einhvern tímann gengið út úr hléi? (ef svo er, á hvaða mynd?)

Nei, ég mynnist þess ekki. Maður getur lært og haft gaman af lélegum
kvikmyndum. Maður hættir þá bara að fylgjast með myndinni og fer að pæla í
hvað sé að osfrv. Annars fer ég ekki nægilega mikið í bíó svona í seinni tíð
en vel myndir vel. Núna er ég komin í frí frá vinnu í smá tíma og ætla að
vera duglegur að sjá allt sem mig langar.
 

Að lokum:

Ferðu mikið í bíó og er eitthvað sem þú ert spenntur að sjá á næstunni?

Ég ætla að sjá nýju Coen bræðra myndina og nýju Allen, áður en þær hætta.
Svo kemur Mamma Gógó eftir Friðrik Þór í lok mánaðarins og henni ætla ég
ekki að missa af.