Tían: Bestu myndir áratugarins

Menn virðast aldrei ætla að hætta að deila um hvort áratugurinn hættir núna um mánaðarmótin eða eftir cirka ár. Ég held að við höfum allir fengið okkur fullsadda á þessari rökræðu um aldamótin ’99-00 (eða 2000-’01 – fyrir þá sem eru hlynntir því frekar). Engu að síður virðast flestir erlendir kvikmyndavefir halda sig við það að kalla út sínar bestu myndir s.l. áratugar akkúrat á þessum tíma, þannig að af hverju gerir Kvikmyndir.is ekki bara svipað?

Þessir listar eru búnir að vera í fullum gangi núna (sjá Inglourious Basterds getraun hér) og er ég búinn að bíða ólmur eftir að geta birt mína titla… bara verst að flestir aðrir eru búnir að nefna þá.

Þessi áratugur (og þarna miða ég við frá 2000-2009) er búinn að vera ansi góður. Ég átti allavega í nógu miklum erfiðleikum með að týna inn á listann minn. Það er heilan haug af frábærum myndum að finna en samt var stundum langt á milli góðra kvikmyndaára. Hvað maður hefði ekki gefið fyrir að upplifa annað ár í líkingu við ’94 (að vísu var ég 7 ára þá) eða ’99, en í staðinn fengum við lengra bil þar sem eftirminnilegu titlarnir komu í litlum bunum, og oftar en ekki í kringum Óskarstímann.

Þessi áratugur setti upp marga fílusvipi hjá fólki (og þar bendi ég sérstaklega á tvo mongólita að nafni Jason Friedberg og Aaron Seltzer. Uwe Boll kemur líka sterkur inn) en á hinn bóginn fengum við öflugt hlaðborð af snillingum sem eru annaðhvort rétt að byrja eða eru á hápunkti ferils síns. Peter Jackson, Christopher Nolan, Coen-bræður, Paul Thomas Anderson, Richard Linklater, Darren Aronofsky, Judd Apatow, Danny Boyle, Wes Anderson, Richard Kelly, Neill Blomkamp, flestir hjá Pixar ásamt mörgum, mörgum öðrum geta verið helvíti ánægðir með sjálfa sig því þeir eru á meðal þeirra sem hafa gert s.l. 10 kvikmyndaár ansi notaleg. Tarantino kom síðan á hörðum spretti inn rétt undir lokin og setti sinn stimpil líka. Spurning hvort Cameron geri það sama?

Ég gæti skrifað langar greinar um kosti og galla áratugarins, óvænta glaðninga og helstu vonbrigði svo aðeins eitthvað sé nefnt, en núna vil ég bara leggja áherslu á það sem hefur staðið upp úr.

Áður en ég byrja vil ég taka undir það sem flestir sögðu á Basterds-spjallinu: Það er hellað erfitt að búa til svona lista! Þess vegna vildi ég aðeins nota smá svindl og framlengja valið mitt. Ég byrjaði fyrst að búa til Topp 10 lista, en hann breyttist fljótt í Topp 20 lista og á endanum varð ég að fara upp í 25. Ég legg samt bara áherslur á tíu efstu.

.:BESTU MYNDIR ÁRATUGARINS… AÐ MATI UNDIRRITAÐAR:.

25. Oldboy (2003)
24. Adaptation (2002)
23. Moulin Rouge! (2001)
22. Little Children (2006)
21. Wall-E (2008)

20. Inglourious Basterds/Watchmen: Director’s Cut (jafntefli! Sleppur svona einu sinni)
19. Amélie (2001)
18. Million Dollar Baby (2004)
17. City of God (2002)
16. Before Sunset (2004)
15. No Country for Old Men (2007)
14. Lost in Translation (2003)
13. The Departed (2006)
12. United 93 (2006)
11. Donnie Darko (2001)

.:TOPP 10:.

10. MUNICH (2005)

Ég veit ekki af hverju en mér finnst eins og að fólk sé alveg hætt að tala um þessa mynd, sem er synd, því hún er gargandi snilld og hiklaust ein af vönduðustu, myrkustu og athyglisverðustu myndum Spielbergs frá upphafi. Handritið er frábærlega skrifað og vekur áhorfandann til umhugsunar, leikurinn til fyrirmyndar (þar sem Eric Bana hefur aldrei verið flottari!) og andrúmsloftið fullkomlega „tense.“ Munich grípur mig í hvert sinn sem ég set hana í tækið. Gæti ekki hugsað mér um annað en að kalla hana eina bestu mynd áratugarins.

Hversu oft sá ég hana í bíó? 2x


9. SPIRITED AWAY (2001)

Þessi mynd er það sem ég kalla á mínu heimili „sparimynd.“ Ég vil ekki horfa alltof oft á hana því í hvert sinn sem ég geri það er upplifunin engri lík. Í stað þess að nauðga þessari perlu í DVD spilaranum reglulega kýs ég að horfa á hana cirka bara einu sinni á ári og ég held að ég hafi gert það alveg síðan hún kom út. Ekki bara er Spirited Away með eitthvað grillaðasta hugmyndaflug sem ég veit um heldur er þroskasagan svo dásamleg á allan hátt, og maður þyrfti að vera með hjarta úr steini til að hrífast ekki af henni. Hún er líka ein af fáu japönsku teiknimyndum sem ég hef séð þar sem enska þýðingin er virkilega góð. John Lasseter lagði víst mikla vinnu í hana. Eins gott líka!

Bíóferðir: 0 (hún kom ekki í íslensk kvikmyndahús. Pirr!)

8. THE PIANIST (2002)

Polanski hefur sjaldan verið eins persónulegur og þegar hann gerði The Pianist, enda lifði hann sjálfur Helförina af og afrakstur myndarinnar er hreint út sagt brilliant! Myndin er áhrifarík, raunveruleg og stundum erfið til áhorfs þótt ég nái aldrei að slíta mér frá henni í hálfa sekúndu. Hún er kannski engin Schindler’s List, en hún er alls ekki svo langt á eftir henni heldur. Þegar Óskarinn var haldinn árið 2003 kom Chicago eins og óboðinn gestur og gjörsamlega stal „Best Picture“ styttuna frá þessari mynd. Mesti skandall Óskarssögunnar síðan Harrison Ford tilkynnti að Shakesphere in Love hafi unnið árið ’99. Ógeðslegt.

Bíóferðir: Bara ein.

7. SIN CITY (2005)

Hvað töffarskap, stíl, brjálæði, one-linera og sjálfsöryggi varðar þá trónir þessi mynd klárlega á toppnum. Hér höfum við nefnilega ekkert annað en hraðskreiða blæjubíla, harðnagla í síðum frökkum, fáklæddar konur og byssusjúka vitleysinga og myndin (sem og áhorfandinn) fílar það í BOTN allan tímann! Ég er enn pínu svekktur að menn hafi sagt að The Wrestler hafi verið „comeback-myndin“ hans Mickey Rourke. Þeir sáu greinilega ekki Sin City.

Bíóferðir: Sex!

6. PAN’S LABYRINTH (2006)

Ógleymanleg fantasía sem tekst bæði að vera brútal og gullfalleg á sama tíma. Sagan skilur heilmikið eftir sig og ég elska sérstaklega hvernig áhorfandinn „ræður“ því hvort hún endi annaðhvort ótrúlega vel eða mjög illa. Það er auðséð að Guillermo del Toro lagði blóð, svita og tár í þessa mynd. Hún er vönduð á allan hátt og leikurinn er gallalaus.

Bíóferðir: Tvær.


5. THE DARK KNIGHT (2008)

Það er eitt að standast það bilaða „hæp“ sem var í kringum þessa mynd áður en hún kom út. Það er annað að troða sér inn á 90% af þeim topplistum sem annaðhvort varða árið 2008 eða allan áratuginn. The Dark Knight kom sá og sigraði, og ofurhetjumyndir verða pottþétt ekki betri en þetta næstu árin. Ég held þó að flestir líti á þessa mynd sem eðalglæpamynd sem er stútfull af siðferðislegum pælingum og óvæntum uppákomum. Sérfræðingar hafa reynt að stúdera þessa mynd til að finna hvaða galla hún hefur, en þeir reynast vera fáir sem óséðir. Frammistöðurnar eru allar frábærar, ekki bara hjá Ledger sjálfum heldur öllum. Handritið er meistaralega unnið þar sem mikið tillit er tekið til persónusköpunar og lógíu. Æ hvað meira er svosem hægt að segja sem ekki hefur verið sagt áður?? Fimmta sæti hjá mér. Það ætti að segja eitthvað.

*Hvísl: Það er hins vegar ónefndur stjórnandi á þessum vef sem er ekki par hrifinn af þessari mynd. Án djóks.

Bíóferðir: Sex.

4. CHILDREN OF MEN (2006)

Það var ást við fyrstu sín þegar ég sá þessa mynd fyrst, og hrifningin hefur ekkert dalað síðan. Children of Men er ein af þessum myndum sem mér finnst vera svo stórkostleg „af því bara.“ Hún er æsispennandi, fyndin, hrottaleg, falleg svo ekki sé minnst á það hvað hún er drungalega raunveruleg. Kvikmyndatakan er líka ein sú besta sem ég hef séð öll þau ár sem ég hef skrifað um kvikmyndir og ég skora á einhvern til að mótmæla því.

Bíóferðir: Tvær.

3. REQUIEM FOR A DREAM (2000)

Án nokkurs vafa einhver átakanlegasta kvikmynd sem ég hef séð sem fjallar um eiturlyf. Ég krefst þess að þessi mynd verði sýnd í öllum grunnskólum á landinu því betri forvarnarkennslu er ekki hægt að finna um þetta. Þú þyrftir að vera andlega óviðbjargandi ef þú myndir horfa á þessa mynd og samt halda að það gæti verið gaman að prufa eiturlyf. Darren Aronofsky gerir eitthvað með hráefnið sem fáar dramamyndir myndu þora og það er að taka afskaplega viðkunnanlegar persónur og sturta þeim niður í klósettskál Satans og í 100 mínútur fylgjumst við með lífi þessara einstaklinga versna og versna með hverri senu. Þessi upplifun er einstök og eftir myndina er maður alveg gjörsamlega búinn á því. Klippingarstíllinn og tónlistin er líka svo taugatrekkjandi að maður finnur fyrir vímunni, og það étur mann upp úr alla lengdina. Requiem for a Dream er skylduáhorf í orðsins fyllstu merkingu. Af þeim „óþægilegu“ myndum sem ég hef séð yfir árin (t.d. Irreversible og Lilya 4-Ever) þá er þessi sú albesta.

Bíóferðir: Glætan að ég hefði meikað meira en eina.

2. THE LORD OF THE RINGS: THE RETURN OF THE KING (2003)

Eins mikið og ég dái fyrstu tvo kaflana þá voru þeir aðeins upphitanir í mínum augum í samanburði við þennan últra-geðveika eftirrétt sem Peter Jackson skapaði af svo mikilli ástríðu. Return of the King hefur allt sem hinar tvær höfðu nema bara miklu meira af því! Hnútarnir eru vel hnýttir og dramað hefur aldrei verið sterkara. Með þessari kvikmyndaseríu sinni – og sérstaklega þriðju myndinni – hefur Jackson skipað sér góðan sess í helstu bókum kvikmyndasögunnar í framtíðinni og enginn getur talist alvöru kvikmyndaáhugamaður sem ekki mun kannast við nafnið hans.

Bíóferðir: Fjórar (sem er helvíti gott miðað við lengdina).


1. MEMENTO (2000)

Einhver allra frumlegasta film-noir mynd sem ég hef á ævi minni séð, og ég elska film-noir myndir, sem þýðir að ég hef séð þær ófáar. Memento hefur allt sem ég gæti mögulega viljað frá svona mynd. Hún hefur spennu, húmor („So I’m chasing this guy… Nope, he’s chasing me.“), athyglisverðar persónur, solid fléttur og söguþráð sem er bæði ófyrirsjáanlegur og djarfur. Strúktúrinn er einhver sá flottasti sem ég hef séð í kvikmynd, og að segja sögu afturábak getur auðveldlega mistekist í röngum höndum, en Nolan-bræður halda kúlinu frá upphafi til enda. Memento er ekta mynd til að ræða um við félaga sína eftirá og það er ekki eðlilegt hvað hún hefur gott „replay-value.“ Hún er algjörlega ein sinnar tegundar og síðan ég sá hana fyrst hef ég litið á hana sem eina af mínum uppáhaldsmyndum.

Bíóferðir: Tvær. DVD gláp? Trilljón.

Kannski ekki sérlega marktækt þegar það er enn hellingur af 2009-myndum eftir að koma, en þær þyrftu líka að vera andskoti frábærar ef þær ættu séns hingað inn.

Allavega, þar hafið þið það. Ég þakka fyrir lesturinn. Í næstu viku mun ég fjalla um „Vanmetnustu myndir áratugarins.“