Mikkelsen í næstu Indiana Jones

Danska stórstjarnan Mads Mikkelsen mun fara með eitt af aðalhlutverkum fimmtu kvikmyndarinnar um fornleifafræðinginn og ævintýramanninn Indiana Jones, en frá þessu er greint í Deadline.

Mikkelsen hefur verið á vörum margra á undanförnum mánuðum og hefur hann haft sérdeilis mörg járn í eldinum. Nýverið tók hann við hlutverki galdrakarlsins Gellerts Grindelwalds í hinni væntanlegu Fantastic Beasts 3 sem byggð er á ævintýraheimi J.K. Rowling. Þá má einnig geta þess að Mikkelsen er tilnefndur til Óskarsverðlauna í ár fyrir stórleik sinn í verðlaunadramanu Druk, en auk þess er leikarinn þekktur fyrir túlkun sína í myndunum Jagten, Valhalla Rising, Rogue One (Star Wars), Doctor Strange (Marvel), Casino Royale (007) og sjónvarpsþáttunum Hannibal.

Áætlað er að fimmta ævintýri fornleifafræðingsins fræga verði frumsýnt í júlí 2022. Harrison Ford snýr að sjálfsögðu aftur – í hinsta sinn – í titilhlutverkið og fer leikkonan og höfundurinn Phoebe Waller-Bridge með eitt af burðarhlutverkunum. Það er bandaríski leikstjórinn James Mangold (3:10 to Yuma, Logan) sem situr við stjórnvölinn, Steven Spielberg sér um framleiðslu og skrifast handritið á þá Jonathan Kasdan (Solo: A Star Wars Story) og David Koepp (Jurassic Park, Indy 4).

Ekki er vitað meira um leikaraval ‘Indiana Jones 5’ að svo stöddu.