Blautur í bransapólitík

‘Mank’ er sannkölluð kvikmyndaperramynd. Það bæði lyftir henni upp á vissan gæðastall en vinnur sömuleiðis gegn henni í augum almenna áhorfandans. En myndin, sem í fyrstu virðist þurr og uppfull af sér sjálfri, er fljót að sanna sig sem þrælskemmtilegt eintak; hið forvitnilegasta innlit í hugarheim áhugaverðs manns, innlit í merkilegan bransa, kexruglað fólk og eina klassíska mynd.

Til fjölda ára hefur Citizen Kane frá Orson Welles verið ein virtasta og að margra áliti besta kvikmynd bandarískrar kvikmyndasögu. Welles var undrabarn (og framúrskarandi „auteur“) í kvikmyndalistinni, og var aðeins 24 ára þegar hann hafði leikstýrt, leikið í og átt þátt í handriti Citizen Kane. Lengi hefur sú flökkusaga þó verið á sveimi, að náðargáfa hans í handritaskrifum hafi ekki verið jafn mikil og á öðrum sviðum listarinnar, og meðhöfundur hans að Citizen Kane, Herman J. Mankiewicz, e. Mank, eigi heiðurinn af handriti myndarinnar einn og óstuddur.

Kvikmyndin ‘Mank’ segir lauslega frá þessu sjónarhorni og tilurð handritsins sem skaut Welles upp á stjörnuhimininn. Meira að segja er hermt að Mank hafi verið upphaflega ráðinn sem skuggahöfundur og þurft að berjast fyrir að merkja sér handritið. Áhersla kvikmyndarinnar er þó meira í að leyfa fólki að kynnast manninum á bak við pennann; persónuleika Manks, göllum hans, gildum og stöðu innan Hollywood við upphaf hinna svokölluðu gullaldarára. 

Gæðakóngurinn David Fincher er hér kominn á sinn persónulega leikvöll. Hann er samkvæmur sjálfum sér í yfirþyrmandi níhilisma, litleysi (bókstaflega, í þessu tilfelli), þorsta fyrir skepnumyndum manneskjunnar með sínu næma auga fyrir kuldalega lokkandi andrúmslofti. Nú kvikmyndar hann að vísu handrit eftir föður sinn heitinn, Jack Fincher; handrit sem sýnir lúmskt hvað feðgarnir eiga margt sameiginlegt í að skoða grárri svæði mannlega þáttarins af áferðarmikilli hreinskilni.

„Það er ómögulega hægt að fanga ævi eins manns á tveimur klukkutímum,“ tautar Mank á einum tímapunkti, sem rímar við myndina sjálfa, sem er ekki dæmigerð ævisaga (e. „biopic“). ‘Mank’ er prýðisdæmi um hvernig hægt er að leggja í þennan biopic-flokk án þess að valhoppa í gegnum ævilanga tímalínu, líkt og kvikmyndaða Wikipedia-punkta. Athygli er beint að umfangi persónuleika og kjarna viðkomandi og í tilviki Mank; gangverkinu, gildunum, göllunum, löngununum, og því hvort eitthvað djúpstætt liggi á bak við áfengisneysluna.

Á blaði virkar það ekkert sérlega spennandi að fá enn eitt dramað um drykkfelldan, miðaldra listamann í rjúkandi tilvistarkreppu yfir nýjasta höfundarverki sínu, fortíð sinni og tengslum við annað fólk. Á móti forðast Fincher eldri listilega vel að velta sögunni upp úr flestu því sem gæti íþyngt frásögninni. Sú nálgun að einblína á áfengissjúkan Mank er hvorki fordæming á manninum né er verið að betla samúð áhorfenda. Hann er bersýnilega í ruglinu, enda tilheyrir hann rugluðum bransa, en handritshöfundur dregur aldrei snilligáfu hans í efa.

Persónusköpun Manks, í framúrskarandi túlkun leikarans Gary Oldman, er prýðilega kortlögð á þessum tveimur tímum. Oldman er bæði rangur en hárréttur maður í hlutverkið; vitlaust valinn í þeim skilningi að leikarinn er um 30 árum of gamall fyrir rulluna en yfirstígur furðulega þann hjalla með því að vera ávallt ánægjulegur áhorfs. Hann fetar þá fínu línu að gera fráhrindandi, sjálfshatandi og -dýrkandi mann að viðkunnanlegum sjarmör. Líkt og Sara, hin óendanlega umburðarlynda eiginkona hans (frábærlega leikin af Tuppence Middleton), segir sjálf: Mank er allt annað en leiðinlegur.

Þó að Oldman brilleri í sínu hlutverki, eru það Amanda Seyfried og Lily Collins sem eiga þessa mynd og hafa aldrei verið betri. Seyfried er heillandi og nær Marion Davies með stæl og Collins er samstundis viðkunnanleg og sterk frá fyrstu kynningu. Vel getur líka verið að aldrei hefur nokkurn tímann náðst betri eftirherma af Orson Welles á kameru, en þessi er listilega leikin í höndum leikarans Tom Burke. Ekki má heldur gleyma hörkugóðum Bill Nye (hinum eina sanna) í hlutverki rithöfundarins Upton Sinclair.

Fincher-feðgarnir hugsa í mörgu smáu til að móta eitthvað stórt – og fjalla um hvað stjórnendur kvikmyndavera strípa oft burt bíótöfra þegar pólitíkin innan og utan iðnaðarins þvælist fyrir listinni. Sýnidæmin um hvaða fólk, lífspunktar og áhrif rötuðu rakleitt inn í Citizen Kane handritið (sem áður var kallað American) eru sýnd í endurlitssenum. Lendir rithöfundurinn hressilega upp á kant við þekkta bíóþursa á borð við Louis B. Mayer, Irving Thalberg, David O. Selznick og viðskiptamógúlinn William Randolph Hearst ekki síst, þennan sem er greinileg fyrirmynd Charles Foster Kane.

Þegar leikstjórinn skiptir á milli mismunandi tímalína í aftari hlutanum verður flæðið ögn klunnalegt. Senur eru brotnar upp og látnar hanga eins og úr linum reifara. Uppbygging og klipping, sem ekki flæðir nægjanlega vel, tekur þó ekkert frá gæðum samtalanna, líflausum rafmögnuðum samskiptum leikaranna eða heildarsvipnum. Bætum svo við dúndurfallegri og gífurlega faglegri kvikmyndatöku, sem mixar skemmtilega hinu gamla Hollywood og nýja (þ.e.a.s. stafrænu og í breiðtjaldsformi, auk þess að vera gefið út á Netflix), og ávallt áreiðanlegri „múd“ tónlist frá dúóinu Reznor og Ross.

‘Mank’ er enn ein svart(hvít)a rósin í hnappagat Finchers. Leikstjórinn hefur vissulega átt bitastæðari verk en ekki er það síðra að sjá hann svona afslappaðan, mannlegan og dannaðan. Myndin gengur upp sem þrælvandað innlit í öðruvísi tíma bíóbransans sem þó nær einnig að spegla samtímann á vissa vegu. Ef titlar eins og t.d. Hail, Caesar, Once Upon a Time in Hollywood, Barton Fink, Ed Wood og fleiri slíkar tala til þín, má Mank alveg vera með í þeim félagsskap.

Í styttra máli: Þessi svarthvíta kvikmyndanördastemning er ekki allra, en vönduð og skemmtileg er hún. „Biopic“ af betri gerðinni.

PS. Mælt er sérstaklega með því að horfa á Mank og *síðan* Citizen Kane, til að ramma inn þemað – og gamanið.