Bland í poka fær CILECT viðurkenningu

Útskriftarmynd Helenu Rakelar Jóhannesdóttur frá Kvikmyndaskóla Íslands, Bland í poka, var valin 17. besta myndin af 118 í árlegri stuttmyndasamkeppni CILECT, en frá þessu er greint á vef Kvikmyndaskólans.

CILECT eru samtök 130-140 bestu kvikmyndaskóla í heiminum. Þetta er næstbesti árangur skólans frá upphafi. Árið 2018 hafnaði útskriftarmyndin 3 Menn í 14 sæti og árið 2016 hafnaði myndin Himinn og Jörð í 20. sæti.

„Þetta eru sannarlega gleðifréttir að sjá okkur standa svona vel að vígi í keppni með bestu skólum heims og staðfesting á þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað undanfarinn ár hjá skólanum,“ segir Friðrik Þór Friðriksson, rektor Kvikmyndaskólans, um árangurinn.

Helena var hæstánægð með niðurstöðuna og hafði þetta að segja:

„Seint hélt ég að ég yrði mjög ánægð með að lenda í 17 sæti í einhverju en miðað við samkeppnina í cilect keppninni þá held ég geti talað fyrir okkur öll sem standa á bak við Bland Í Poka og sagt að við séum ótrúlega stolt og ánægð með þennan árangur og svo innilega þakklát öllum þeim sem komu að gerð myndarinnar.“