Abbababb verður að kvikmynd – Óskað eftir leikprufum

Óskað er eftir krökkum á aldrinum 6-13 ára fyrir íslensku dans- og söngvamyndina Abbababb. Myndin er byggð á samnefndum söngleik eftir Dr. Gunna tónlistarmann og verður henni leikstýrt af Nönnu Kristínu Magnúsdóttur.

Abbababb hlaut 120 milljóna króna vilyrði frá Kvikmyndamiðstöð. Ásgrímur Sverrisson (Reykjavík) skrifar handritið og þeir Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson framleiða fyrir Kvikmyndafélag Íslands. Þess má geta að fyrirtækin 41Shadows í Danmörku og Solar Films í Finnlandi eru meðframleiðendur.

Umsóknarfrestur til 3. júlí

Myndin segir frá hinum kjarklitla Aron Neista sem er í leynifélaginu Rauðu hauskúpunni ásamt vinum sínum Óla og Höllu. Hann neyðist til að taka á honum stóra sínum þegar hrekkjusvínin í hverfinu láta til skarar skríða.

Síðasti dagur til að senda inn leikprufu er föstudagurinn 3. júlí nk. en í tilkynningu frá Doorway Casting kemur fram að krakkar megi undirbúa prufuna heima, taka upp og senda á prufur@doorway.is.

Prufan á að vera að hámarki fjórar mínútur með kynningu, leiknum texta og útlistun á hæfileikum viðkomandi.

Samnefnd plata Dr. Gunna frá 1997 er líklega ein af þekktari barnaplötum Íslands. Á næstu misserum má búast við kvikmyndaðri söngleikjaútgáfu af lögum eins og „Systa sjóræningi“, „Rauða hauskúpan“, „Óli hundaóli“ og „Prumpufólkið,“ að sjálfsögðu.