Teiknimyndir á íslensku verði ófáanlegar á DVD

Útgáfa DVD-diska með talsettum teiknimyndum á Íslandi virðist vera öll og markar Óskarsverðlaunateiknimyndin Frozen II síðasta naglann í líkkistuna. Þetta kemur fram á vef RÚV en þar er vakið athygli á því að teiknimyndin sé hvergi fáanleg með íslensku tali á DVD.

Ákvörðun þessi kemur frá höfuðstöðvum framleiðslufyrirtækjanna erlendis, sem hefur slitið tengsl við minni markaði á við Ísland. Útgáfa DVD-diska heldur áfram ágætisdampi í Bretlandi, Þýskalandi og fleiri stórum löndum en Íslendingar eru komnir varanlega í VOD-leigurnar og flestar verslanir hér á landi hætt sölu á umræddum diskum.

Þorvaldur Árnason, framkvæmdastjóri Samfilm, segir DVD-markaðinn hafa gjörbreyst á stuttum tíma og til dæmis seldist fyrri Frozen myndin afar vel fyrir örfáum árum. „Við Íslendingar erum svo svakalega fljótir að skipta yfir í nýja tækni að markaðurinn hrundi hjá okkur,“ segir Þorvaldur í samtali við RÚV.

Þorvaldur segir að þó DVD-markaðurinn sé að leggjast af á Íslandi þá hefði mynd á borð við Frozen II án efa selst vel. Vissulega er hægt að kaupa diskana erlendis frá, en íslenskt tal er þá ekki í boði sem væntanlega er hindrun fyrir marga foreldra. Þá séu ennþá til safnara sem vilja eiga kvikmyndir á DVD, en á mörgum heimilum í dag eru ekki einu sinni til spilarar fyrir slíka diska.

Hér á landi semur Samfilm fyrirtækið beint við sjónvarpsdeildir Símans og Vodafone og því er hægt að nálgast Frozen II þar, svo dæmi sé tekið, með íslensku tali. Annars vegar fæst myndin á bæði DVD og Blu-Ray í Nexus.

Enn er þó ekki vitað hvenær eða hvort streymisveitan Disney+ rati til Íslands á næstunni.