Topp 10 á Netflix: Never Have I Ever efst – RuPaul heldur sér

Notkun Íslendinga á streymisveitunni Netflix heldur stöðugum dampi og virðist vera nóg af framboði efnis sem hentar hverjum og einum. Eins og flestir vita birtir veitan lista yfir tíu vinsælustu titla í hverju landi, en þar falla kvikmyndir, sjónvarpsþættir, heimildarmyndir og allt tilheyrandi undir sama hatt.

Listinn uppfærist daglega en að svo stöddu samanstendur hann af 10 eftirfarandi titlum sem eru heitastir á Íslandi í dag:

1. Never Have I Ever

Unglingaþættirnir úr smiðju þeirra Mindy Kailing og Lang Fisher skutust beint efst á topplista vikunnar. Þeir fjalla um hina 15 ára gömlu Devi Vishwakumar (leikin af Maitreyi Ramakrishnan) sem snýr aftur til skólans Sherman Oaks í Kaliforníu. Fyrra ár hennar í skólanum var algjör martröð og hyggst hún gjörbreyta félagsstöðu sinni í þetta skiptið, en vinir hennar og fjölskylda gera takmarkið erfiðara.


2. RuPaul’s Drag Race

„Ef þú elskar ekki sjálfan þig, hvernig ætlarðu að fara að því að elska einhvern annan?“ spyr skemmtikrafturinn RuPaul í lok hvers þáttar, en keppnisþættir dragdrottningarinnar hafa vel verið á rjúkandi góðri siglingu og hafa landsmenn fylgst ólmir með tólftu þáttaröðinni og framvindu hennar. Skemmst er að segja frá því að þetta er stórskemmtilegt raunveruleikasjónvarp – og dramað er vægast sagt ávanabindandi og uppfullt af eftirminnilegum keppendum.


3. The Last Dance

Heimildarþættirnir The Last Dance fjalla um körfuboltalið Chicago Bulls á tímabilinu 1997-98, þegar liðið vann þriðja meistaratitilinn í röð. Þetta var sjötti meistaratitill liðsins á átta árum og síðasta tímabil Michael Jordan í treyju Chicago Bulls. Þættirnir voru frumsýndir í seinnihluta apríl og hlotið afar góða dóma, með áherslu á það að viðkomandi þarf ekki að vera körfuboltaunnandi til að festast í þeim.


4. Dangerous Lies

Leikkonan Camilla Mendes (sem margir ættu að þekkja úr Riverdale) fer með aðalhlutverkið í spennutrylli sem segir frá ummönnunaraðila sem flækist í hættulegan lygavef í kjölfar þess að erfa setur foreldra sinna. Með önnur hlutverk fara Jesse T. Usher, Cam Gigandet, Jamie Chung og Elliot Gould.


5. Extraction

Stórmynd úr smiðju Netflix sem er skrifuð af öðrum helmingi Russo-bræðranna (The Winter Soldier, Infinity War, Endgame) með Chris Hemsworth í aðalhlutverki. Extraction hefur náð gífurlegum áhorfstölum um allan heim og er um að ræða taumlausa hasarmynd um málaliðann Tyler Rake. Dag einn er hann ráðinn í sína hættulegustu ferð til þessa, þar sem verkefni hans er að bjarga syni alþjóðlegs glæpaforingja, sem situr í fangelsi, sem hefur verið rænt. Hasarunnendur ættu að öllum líkindum ekki að verða fyrir vonbrigðum.


6. After Life

Önnur sería af hinni geysivinsælu þáttaröð Ricky Gervais gladdi ófáa í samkomubanninu og hafa viðtökur verið stórgóðar, hérlendis og víðar. Gervais leikstýrir þáttunum einnig og leikur aðalhlutverkið, en hér í grunninn er fjallað um mann sem glímir við þunglyndi eftir að hann missir eiginkonu sína. Hann skeytir skapi sínu á allt fólk í kringum sig og segir hvað honum býr í brjósti umbúðalaust. Stórgóðir þættir.


7. Too Hot to Handle

Átta þátta raunveruleikasería sem lenti á veitunni í miðjum mánuðinum og flaug strax efst á aðsóknarlistann. Hugmynd þáttanna gengur út á það að kenna ungu, einhleypu fólki að mynda tengingu sem er ekki af hinu líkamlega. Ef keppendur stunda líkamlega tengingu af einhverju tagi, minnkar verðlaunaféð, en hvert par hefst með 100 hundrað þúsund dollara upphæð.


8. Hollywood

Miní-sería um hóp leikara og kvikmyndagerðarmanna á uppleið á svonefndri gullaldartíð Hollywood-áranna. Þættirnir sýna ýmsar hæðir og lægðir bransaheimsins og hvað sumir ganga langt til að láta drauma sína rætast.


9. Outer Banks

Hér segir frá hópi ungmanna í N-Karólínu sem kallar sig “Pogues,” sem leggja í leiðangur til að uppgötva sannleikann á bakvið dularfullt hvarf hjá föður höfuðpaursins. Á meðan leitinni stendur finnur hópurinn goðsagnakenndan fjarsjóð sem föðurnum. Þættirnir voru gefnir út í vikunni og eru tíu í heildina.


10. The Half of It

Bandarísk gamanmynd sem frumsýnd var á streyminu á föstudaginn. The Half of It fjallar um feimna, ófélagslynda stúlku að nafni Ellie Chu. Ellie er fyrirmyndarnemandi sem sinnir oft heimavinnu samnemanda sinna gegn greiðslu. Dag einn biður vinsæli íþróttakappinn Paul hana um að aðstoða sig við að heilla draumastúlkuna, Aster Flores. Hún er talin sú vinsælasta og fallegasta í skólanum, og þó hún sé á föstu telur Paul líklegt að hann geti fangað hjarta hennar með bréfaskiptum. Ellie samþykkir að skrifa bréfin en henni til mikillar furðu verður hún sjálf ástfangin af Aster. Myndinni er leikstýrt af Alice Wu og skrifar hún einnig handritið.

Stikk: