Söngleikur með tónlist Take That í bígerð

Stórsmellir bresku hljómsveitarinnar Take That verða í brennidepli í söngleiknum Greatest Days sem nýlega hóf framleiðslu. Kvikmyndin er lauslega byggð á leiksýningunni The Band sem fjallar um hóp vinkvenna sem sameinast á ný eftir 25 ár í tilefni þess að sjá sína uppáhalds hljómsveit á sviði.

Heimildir fréttamiðilsins Deadline herma að kvikmyndin muni segja frá skáldaðri drengjahljómsveit, draumum þeirra og aðdáendum. Myndin er sögð vera í anda kvikmynda á borð við Rocketman, Bohemian Rhapsody og Mamma Mia. Í áðurnefndri leiksýningu var notast við 16 lög frá Take That og kemur fram á Deadline að bandið sé um þessar mundir að semja nýtt lag fyrir hina væntanlegu kvikmyndaaðlögun.

Hljómsveitin Take That var stofnuð af umboðsmanninum Nigel Martin-Smith í þeim tilgangi að vera „hin fullkomna poppsveit“. Liðsmenn hennar hétu því að vinna 15 klukkutíma á dag, 50 vikur á ári, í þágu listarinnar og var blátt bann lagt við eiturlyfjaneyslu og drykkju. Vinnan bar árangur og seldust breiðskífur bandsins í fleiri milljónum eintaka og naut mestra vinsælda í Evrópu. Hljómsveitin starfaði í alls sex ár og olli það mikilli sorg hjá stúlkum víða um Evrópu þegar söngvarinn Robbie Williams sagði skilið við liðsmennina.

Greatest Days kvikmyndinni verður leikstýrt af Coky Giedroyc (How to Build a Girl) og mun Tim Firth sjá um handritið, en Firth skrifaði einnig leiksýninguna sem var fyrst afhjúpuð árið 2017.