Cats sögð vera verk djöfulsins – Sjáðu „hreinskilið“ sýnishorn

Fjölmargir kannast eflaust við eða hafa á einhverjum tímapunkti rekist á Honest Trailers rásina á YouTube. Eins og nafnið gefur til kynna er þarna tekin glettin nálgun á sýnishorn stórmynda… ef þau segðu sannleikann. Nýjasta myndbandið setur klærnar í söngleikinn Cats, sem er á góðri leið með að verða ein umdeildasta, furðulegasta og hataðasta mynd þessa áratugar.

Umtalið í kringum myndina hefur magnast töluvert undanfarna fjóra mánuði og verið undirstaða óteljandi brandara og nokkurra hneykslismála á bakvið tjöldin frá því að stiklurnar voru fyrst gefnar út. Fyrir nokkrum vikum var skammarstimpillinn endanlega innsiglaður þegar myndin vann til fimm Razzie-verðlauna, þar á meðal fyrir verstu mynd og verstu leikstjórn (Tom Hooper).

Svo má auðvitað ekki gleyma þessu.

„Fyrst að leikstjórinn Tom Hooper er nú margtilnefndur Óskarsverðlaunahafi, hefur Satan snúið aftur til að heimta sinn hluta af samkomulaginu,“ segir í sprellstiklunni en þar eru hvergi spöruð skotin á söngleikinn. Má alveg segja að umtal og orðspor Cats sé vel súmmað upp, jafnt og vandræðin við gerð hennar.

Njótið heil.

Stikk: