„Er hægt að gera góða kvikmynd um knattspyrnu?“

„Hver einustu landsleikjahlé líða fyrir mér eins og heill mánuður í hvert skipti. Þá skoða ég dagatalið á hverjum degi og tel óþolinmóður niður dagana. Það hefur kannski aðeins breyst síðustu ár eftir að karlalandslið okkar varð frábært knattspyrnulið og hafa þeir nú gefið okkur endalaust af ljúfum minningum. „Aldrei vekja mig,“ eins og Gummi Ben sagði. Engu að síður þá fæ ég enn í dag fótbolta „fráhvarfseinkenni“ þegar þessi hlé taka við.“

Tómas Gauti

Á þessum orðum hefst líflegur pistill Tómasar Gauta Jóhannssonar handritshöfundar. Skrifin voru birt á vefnum Rauðu djöflarnir og segir Tómas að hugurinn hafi reikað í miðjum veirufaraldri.

„Á meðan þetta ástand er í gangi sem er eins og ár af landsleikjahléi og íþróttafráhvörfin í botni hef ég verið að rifja upp gömul tímabil,“ segir Tómas. Höfundurinn hefur eytt þremur vikum í sóttkví og viðrar ýmsar hugmyndir í fráhvörfunum. Hann slær á létta strengi í pistlinum og segir leikna kvikmynd um þjálfarann Sir Alex Ferguson vera kjörið efni fyrir hvíta tjaldið og færir rök fyrir því hvers vegna í ítarlegri úttekt.

„Hver myndi leika Ferguson? Hver myndi leikstýra? Hvers konar kvikmynd ætti þetta að vera? Öll ævisagan? Eða bara eitt tímabil? Hvaða tímabil? Er hægt að gera góða kvikmynd um knattspyrnu yfir höfuð?“ spyr Tómas og segist ekki hika við það að taka við því verkefni að skrifa handritið sjálfur. Að mati Tómasar væri skoski leikarinn Brian Cox fullkominn sem Ferguson.

„Hann er á frábærum aldri (73 ára), er skoskur, sjarmerandi og það er held ég ekki til leikari í heiminum sem er betri að öskra og að snöggreiðast eins sannfærandi og Ferguson var þekktur fyrir,“ segir Tómas og vísar í neðangreinda klippu.

„Stóra spurningin er þá hvenær á myndin að gerast? Auðvelda svarið er 1998-1999. Við höfum öll séð þá sögu. Íþróttalið sem tekst hið ómögulega. Eins vel og það hljómar að horfa á dramatíska lokakafla þar sem lýsandinn öskrar „…and Solskjær has won it!“ og lokasetning myndarinnar frá Ferguson “Football, bloody hell!” þá er ég ekki sannfæður að það væri besta sögusviðið. Það væri held ég of klisjuleg mynd og ekki hægt að kafa eins djúpt í Ferguson og hans karakter.“

Ber þess að geta að árið 2015 keypti Sigurjón Sighvatsson, einn stærsti kvikmyndaframleiðandi Íslands, rétt á handriti sem Tómas skrifaði með það að markmiði að gera kvikmynd úr því. Umrætt handrit kemur þó hvergi knattspyrnu við.

„Ég hef séð örugglega yfir 20 leiknar kvikmyndir um knattspyrnu og þær eru því miður allar frekar slappar,“ segir Tómas og vísar í hlaðvarpið Football Cliches hjá Atletic. Þar er spurningunni varpað um hvers vegna knattspyrnukvikmyndir eru almennt lélegar. „Goal er ein sú frægasta og þó hún sé allt í lagi þá fær maður hroll þegar aðalleikarinn fær boltann. Stutta svarið í hlaðvarpinu var að ástæðan er að það er mun erfiðra að choreographa knattspyrnu en aðrar íþróttir. Ég held það sé rétt. Þá velti ég því fyrir mér af hverju knattspyrnumenn geta þá bara ekki leikið í kvikmyndum? Svarið við því er að þeir eru flest allir ömurlegir leikarar. Fyrir utan kannski Neymar.“

Grein Tómasar má lesa í heild sinni HÉR og eru lesendur og knattspyrnuáhugamenn eindregið hvattir til að lesa.

Stikk: