Munur á að leika skáldaða persónu og raunverulega

Kvikmyndaleikarinn Michael B Jordan tjáði sig nú nýlega um muninn á því að leika skáldaða persónu í kvikmynd, og raunverulega persónu.

Í nýjustu kvikmynd hans, Just Mercy, sem frumsýnd verður hér á Íslandi þann 28. febrúar nk., þá bregður Black Panther stjarnan sér í hlutverk lögmannsins Bryan Stevenson, sem kom að máli Walter McMillian, sem Jamie Foxx leikur, sem var ranglega fangelsaður á níunda áratug síðustu aldar.

Jordan og Foxx saman í réttarsalnum.

„Þegar þú ert að vinna með skáldaðar persónur, þá hefurðu meira leyfi til að vera skapandi í nálgun þinni, og ýkja á ákveðnum stöðum,“ sagði Jordan við vefsíðuna Digital Spy.

„Þegar þú ert að vinna með raunverulegar persónur, þá , þú veist, verðurðu að virða og halda í heiðri allar staðreyndir, og vera eins heiðarlegur og sannur og þú getur.“

Við rimlana.

Leikarinn naut góðs af því að hitta persónuna sem hann lék. „Það að fá að hitta Bryan og vinna með honum að þessu, hringja í hann og senda SMS, ef mig vantaði leiðsögn, þar var hann betri en enginn.“