Vildi leikstýra Reservoir Dogs

Leikstjórinn Quentin Tarantino þolir ekki kvikmyndina True Romance. Þetta er ein af  lífsseigustu sögusögnunum í kvikmyndaheiminum í Hollywood. En sannleikurinn er að sambandið á milli leikstjóra myndarinnar, Tony Scott, og Tarantino, var mun betra og gjöfulla, en margir vilja meina. Allt frá sögusögnum um að Scott hafi upphaflega boðist til að stíga til hliðar og leyfa Tarantino að leikstýra True Romance, og því að Tarantino hafi ekki verið alltof hrifinn af því hvað myndin endaði á góðum nótum, þá er ýmislegt sem má skoða í sambandi leikstjóranna.

Í nýjum þætti af hlaðvarpi Bill Simmons, The Rewatchables, sem fjallar um uppáhalds kvikmyndir til að horfa á í annað sinn, þá fjallar Tarantino um það frá sinni hlið, afhverju Scott leikstýrði True Romance. Tarantino og Simmons voru í þættinum að ræða samstarfsverkefni Tony Scott og handritshöfundarins Shane Black, The Last Boyscout, og umræðan snerist fljótlega að reynslu Tarantino sjálfs af að vinna með Scott. Eftir að hafa lýst yfir aðdáun sinni á kvikmyndum Scotts, þá útskýrði Tarantino að fyrrum starfsmaður Scotts hafi kynnt þá tvo, og Tarantino bjóst ekki við að það myndi leiða til neins sérstaks. Í hlaðvarpsþættinum, mínútu 19.30, útskýrir Tarantino hvernig samstarfið hófst:

„Hann virðist hafa kunnað vel við mig, þannig að hann fór til vinkonu minnar og sagði, „Hvað er málið með Tarantino? Þú sagðir að hann væri handritshöfundur eða eitthvað?“ Og hann segir, „Já, hann hefur skrifað mörg handrit! Hann hefur skrifað tvö mjög góð.“ „Ok, ég væri til í að sjá þau.“ Þannig að hann fékk handritið að True Romance og Reservoir Dogs. Hann las bæði handritin, hringdi svo í þessa vinkonu mína, og sagði, „Ok! Ég vil leikstýra Reservoir Dogs!“

Tarantino segir að þessi vinkona hans hafi þá útskýrt að fjármögnun væri komin vel á veg með Reservoir Dogs, og Scott hafi þá viljað fá True Romance.