Allar streymisþjónustur á einum stað í Dabby

Nú þegar streymisveitum heimsins fjölgar fremur en fækkar ár frá ári, þá getur orðið vandamál að fylgjast með því hvað er í boði á hverjum stað, og ná að njóta alls þess besta frá hverri og einni veitu. Að skruna í gegnum hverja veituna á fætur annarri, Netflix, Amazon Prime Video, Disney +, o.sfrv., getur líka verið pirrandi og valdið óþarfa streitu.

Til allrar hamingju virðist sem lausn sé nú fundin á þessu vandamáli.

Á tæknisýningunni CES 2020 í Las Vegas í Bandaríkjunum nú í vikunni var kynnt til sögunnar nýtt tæki sem kallast Dabby, sem gæti bylt því hvernig við nálgumst efni á streymisþjónustum sem við erum áskrifendur að. Dabby er í raun spjaldtölva með snertiskjá sem á í samskiptum við lykil sem festur er við sjónvarpið þitt. Þú skráir þig inn í allar þjónusturnar sem þú ert áskrifandi að á spjaldtölvunni, og tækið býr til samansafn af öllu sem þú hefur aðgang að. Nú geturðu einfaldlega valið af lista úr öllum streymisþjónustunum á einum stað.

Lætur vita um notkun og kostnað

Dabby mun einnig halda þér upplýstum / upplýstri um stöðuna og verðið á áskriftinni þinni, og taka saman reglulega hve mikið þú notar hverja þjónustu.

Það eina sem neikvætt við við Dabby, sem nú er hægt að panta í forsölu og á að koma á markaðinn í mars nk., er að græjan kostar þónokkuð mikið, eða 400 Bandaríkjadali, um 50 þúsund krónur, sem er tvöfalt meira en Apple TV kostar t.d. Nú er bara að bíða og sjá hvort að íslensku VOD leigurnar geti ekki líka komist inn í Dabby!