Ofurkonur saman í Marvelmynd

Atriði í ofurhetjumyndinni Avengers: Endgame, þar sem kvenkyns hetjur sameinast í bardaga, gæti átt sér framhaldslíf. Brie Larson, eða Captain Marvel / Carol Denvers, eins og hún heitir í Marvel ofurhetjumyndunum, hefur látið hafa það eftir sér að hún og stallsystur hennar í Marvel heimum hafi komið þeirri hugmynd á framfæri við Kevin Feige forstjóra Marvel, að gera Marvel ofurhetjukvikmynd með hópi kvenkyns ofurhetja.

Þær hetjur sem þar um ræðir gætu þá til dæmis orðið Captain Marvel, Scarlet Witch, Shuri, Valkyrie, Mantis, Gamora, Okoye, Nebula, Hope Van Dyne og Pepper Potts.

Í samtali við kvikmyndaritið Variety sagði Brie: „Margir kvenkyns leikarar úr Marvel myndunum fóru til Kevin og við sögðum: Við stöndum saman að þessu, við viljum gera þetta.“

Brie sagðist þó ekki vita hvort að eitthvað framhald yrði á málinu. „Ég hef ekki hugmynd. Ég stjórna ekki framtíð Marvel, en þetta er eitthvað sem við erum mjög heitar fyrir og við teljum að ef það eru nógu margir þarna úti sem vilja það líka, þá muni það gerast.“

Var leyndarmál

Brie, sem er 30 ára gömul og handhafi Óskarsverðlauna, bætti við að dagurinn þegar bardagaatriðið með konunum saman í Endgame var tekið upp, hafi verið frábær. „Að fá að vera með öllum þessum konum í heilan dag, og þér finnst, það pínu óþekkt af því að þetta var leyndarmál og engin okkar mátti tala um það [….] Þetta var tækifæri fyrir okkur að eyða tíma saman. Og eins og margir vita þá vantar oft upp á samstarfið hjá konum. Það er eins og ferskur andblær fyrir okkur í þessum iðnaði, að það er að fjölga kvikmyndum með konum í helstu hlutverkum,“ sagði Larson en Marvel hefur beint sjónum sínum í auknum mæli að konum eftir að Captain Marvel sló í gegn, en tekjur af sýningum hennar námu meira en einum milljarði Bandaríkjadala um allan heim.