Orð Stjórans leiða veginn

Í stuttu máli er „Blinded By the Light“ hin fínasta „feel-good“ mynd og það hjálpar til ef áhorfandinn er hallur undir tónlist Springsteen.

Ungur pakistanskur innflytjandi í Luton í Englandi verður fyrir vitundarvakningu þegar hann kynnist orðum og tónum Bruce Springsteen (einnig þekktur sem Stjórinn). Orð Stjórans verða að hálfgerðum leiðarvísi fyrir Javed (Viveik Karla) sem finnur fyrir auknu hugrekki í að eltast við draum sinn og streitast á móti ströngum gildum og hefðum sem fjölskyldufaðirinn Malik (Kulvinder Ghir) reynir að knýja son sinn til að fylgja.

Rýnir skal fúslega leggja öll spil á borðið og viðurkenna að hann er forfallinn unnandi Stjórans og hefur verið meirihlutann af ævinni og því var „Blinded By the Light“ nokkuð örugglega að fara að slá í gegn. Tónlist Springsteen hefur alla tíð þótt höfða til almúgans og mörgum hverjum finnst hreinlega eins og maðurinn sé að syngja um þá; raunir persónanna í lögum hans, draumar og væntingar, sigrar og feilspor, sorgir og gleði er eitthvað sem margir geta tengt við. Javed, eins og flestir harðir aðdáendur, hvetur alla til að hlusta á orðin en ekki bara tónlistina og „Blinded By the Light“ er ánægjuleg frásögn (einnig byggð á sannri sögu) af hve mikinn mátt þessi tónskáld geta haft.

Myndin gerist árið 1987 á erfiðu tímabili í Englandi í stjórnartíð Margaret Thatcher og mikið atvinnuleysi var hjá verkalýðnum í landinu. Faðir Javeds hefur með miklu striti komið sér og sínum ágætlega upp og hann leggur mikla áherslu á pakistanskar hefðir og vill að sonur sinn viðhaldi þeim. Sér til dægrastyttingar semur Javed ljóð og dreymir um að verða rithöfundur og fær helst hvatningu hjá kennara sínum (Hayley Atwell) en ekki heiman frá. Einnig verður hann var við mikla fordóma gagnvart útlendingum og þá hvetur faðir hans hann til að láta lítið fyrir sér fara.

Það er gaman að sjá hvernig Javed bregst við þegar orð Stjórans taka bólfestu í huga hans. Til að undirstrika boðskapinn eru mörg orðin prentuð á tjaldið og í tilfelli Javeds þá virka þau sem hvatning til að rísa upp…í öllum skilningi. Vissulega er myndin stór lofsöngur til Springsteen (enda er myndin byggð á bók eftir blaðamanninn Sarfraz Manzoor og er hún eitt stórt ástarbréf til hans) en hún er einnig góð og hjartnæm saga um mikilvægi þess að eltast við drauma sína og þora að taka afdrifaríkar ákvarðanir þegar svo ber undir. „Blinded By the Light“ er frekar kómísk megnið af tímanum en grafalvarlegur veruleiki fordóma og útlendingahaturs kemst vel til skila þegar sagan krefst þess. Allur leikur er góður og tónlistin gæti ekki verið betri (alls eru 12 Springsteen lög í myndinni ásamt gömlum og góðum smellum frá A-ha, Pet Shop Boys og Cutting Crew sem dæmi).

„Blinded By the Light“ er í raun svona „feel-good“ mynd í flesta staði; afskaplega fyrirsjáanleg en allt fer á besta veg og allir eru vitrari og ánægðari í lokin. Að hafa svona mörg Springsteen lög er bara bónus.