Góðu strákarnir óvænt á toppinn

Grínmyndin Good Boys, frá Universal, var óvæntur sigurvegari í bíóum Bandaríkjanna nú um helgina, en tekjur af sýningum myndarinnar námu 21 milljón bandaríkjadala. Var hún sýnd í 3.204 kvikmyndahúsum, samkvæmt frétt The Hollywood Reporter.

Óvæntur smellur.

Þetta er í fyrsta skipti síðan árið 2016 að bönnuð gamanmynd ( R-rated í Bandaríkjunum – bönnuð innan 12 ára hér á Íslandi ) fer á topp aðsóknarlistans í Bandaríkjunum, en The Boss var sýnd við miklar vinsældir um vorið það ár. Good Boys, sem er framleidd af æringjunum Seth Rogen og Evan Goldberg, er einnig vinsælasta gamanmynd ársins þegar horft er til nýrra gamanmynda ( ekki endurgerðra eða framhaldsmynda ), og önnur aðsóknarmesta gamanmynd ársins heilt yfir, en einungis Madea´s Family Funeral skákar henni með 27,1 milljón dala tekjur á frumsýningardegi.

Í Good Boys fylgjumst við með þremur 12 ára gömlum strákum, sem eru tilbúnir að gera hvað sem er til að komast inn í kossapartý. Jacob Tremblay, Keith L. Williams og Brady Noon, leika þríeykið, og leikstjóri er Gene Stupnitsky, en þetta er hans fyrsta myndin sem hann stýrir.

Góð helgi

Universal fyrirtækið átti annars góða helgi, eins og The Hollywood Reporter greinir frá. Félagið náði þeim áfanga að verða annað stóra stúdíóið í Hollywood, á eftir Disney, til að fara yfir einn milljarð Bandaríkjadala í tekjur í Bandaríkjunum á þessu ári, en tekjur Disney nema nú til samanburðar 2,8 milljörðum dala. Þá er Universal eina kvikmyndafyrirtækið á þessu ári til að koma nýrri kvikmynd ( ekki endurgerðri eða hluta af seríu ) í fyrsta sæti aðsóknarlistans, en það lék sama leikinn fyrr á árinu með Us eftir Jordan Peele.

Hér hægt að lesa ítarlegri frétt um miðasöluna í Bandaríkjunum um helgina.