Skyndibitastjóri snýr aftur í Coming 2 America

Deadline segir frá því að bandaríski leikarinn John Amos hyggist mæta aftur til leiks í framhaldið á gamanmyndinni Coming to America, sem kölluð er Coming 2 America.

Keppir við McDonald´s.

Í myndinni mæta aftur til leiks aðalstjörnurnar þeir Eddie Murpy og Arsenio Hall, í hlutverkum Akeem Prins og Semmi. Áður hafði verið tilkynnt um ráðningu James Earl Jones í hlutverk Jaffe Joffer konungs, ásamt Paul Bates sem mun aftur leika Oha, hundtryggan þjón konungs.

Aðrir sem tilkynnt hefur verið um að leiki í myndinni eru Wesley Snipes, Leslie Jones, Jermaine Fowler, rapparinn og Íslandsvinurinn Rick Ross, og Kiki Layne, sem leikur dóttur Akeem.

Leikstjóri myndarinnar verður John Landis og handrit skrifa David Sheffield og Barry W. Blaustein.

Coming To America var frumsýnd árið 1988. Þar leikur Murphy krónprins Afríkuríkisins uppskáldaða Zamunda. Í þeirri von að finna hina einu sönnu ást þá fer hann til Bandaríkjanna, en leynir því hver hann er í raun.

Myndin hefur síðustu þrjá áratugi verið ein vinsælasta mynd Eddie Murphy, og nú, þegar endurgerðir njóta vinsælda í Hollywood sem aldrei fyrr, virðist vera rétti jarðvegurinn til að endurnýja kynnin við Joffer konungsfjölskylduna.

John Amos leikur í fyrri myndinni framkvæmdastjóra skyndibitakeðjunnar McDowell´s, Cleo McDowell. Keðjan á að vera stæling af McDonalds´s, með svipuðu útliti, og búningum, en í upphaflegu myndini segir Amos m.a.: „Þeir eru McDonald´s – Ég er McDowell´s.“

Eftir að Cleo býður Akeem vinnu á McDowell´s, þá kynnist Akeem dóttur Cleo, og velur hana sem sína konunglegu brúði.

Auðvitað er Cleo allt annað en sáttur við að dóttir hans sé að hitta einn af starfsmönnunum, en þegar hann kemst að því sanna um prinsinn, þá skiptir hann fljótt um skoðun.

Enn er ekki vitað hvort að Shari Headley muni snúa aftur í hlutverki Lisa McDowell.

Í nýju myndinni er Akeem orðinn konungur Zamunda. Þegar hann fréttir af syni sínum sem hann hefur ekki heyrt af í langan tíma, í Bandaríkjunum, þá fer hann þangað með Semmi til að hitta nýja erfingjann, sem er lýst sem götustrák frá Queen, að nafni Lavelle.

Von er á myndinni í bíó 18. desember 2020.

Hér fyrir neðan má sjá Instagram færslu frá búningahönnuðinum Ruth E. Carter þegar hún tilkynnti að búningahönnun væri hafin fyrir myndina. Með henni á myndinni er aðalstjarnan Eddie Murphy: