Aladdin slær út Independence Day árangur Smith

Í 23 ár hefur Independence Day verið tekjuhæsta bíómynd sem Will Smith hefur leikið í. Nú hefur orðið breyting þar á, og svo virðist sem ákveðnir töfrar eigi þar hlut að máli.

Í síðustu viku sigldi leikin endurgerð Disney á teiknimyndini Aladdin yfir 817 milljóna dala markið á heimsvísu, en það eru einmitt tekjurnar sem Independence Day fékk árið 1996.

Eftir sex vikur í sýningum um heim allan nema tekjur Aladdin nú 874 milljónum bandaríkjadala, en einungis Avengers: Endgame og Captain Marvel, hafa náð að hala inn meira fé á þessu ári.

Í myndbandsskilaboðum á Instagram segist Smith taka fréttunum af auðmýkt og virðingu, og hann kveðst þakklátur fyrir að fá enn stór hlutverk, eins og hlutverk bláa syngjandi og dansandi andans í töfralampanum, þrátt fyrir að vera orðinn 50 ára gamall.

https://www.instagram.com/p/BzOKwBsBdJC/?utm_source=ig_web_copy_link

„Allir um allan heim, takk, takk, takk, takk,“ sagði hann.

Fyrir Smith er hér um að ræða þónokkur tímamót. Independence Day, sem var frumsýnd mitt á milli Bad Boys og Men in Black, var lykilmynd á ferli leikarans, og hann óx úr því að vera aðalleikarinn í sjónvarpsþáttunum Fresh Prince of Bel Air, í að verða ein aðalstjarnan í Hollywood, og sá sem framleiðendur sáu hvað mesta tekjuvon í.

Aladdin er þó ekki eina stórmyndin á síðustu árum sem Smith hefur leikið í. Hann lék til dæmis í Suicide Squad árið 2016, en hún stappaði nærri Independence Day í tekjum, með samtals 746 milljónir dala.

Næsta Will Smith mynd sem kemur í bíó verður Gemini Man eftir Ang Lee, en þar leikur Smith bæði leigumorðingja sem er kominn af léttasta skeiði, og um leið yngra klón af sjálfum sér sem er sent til að drepa eldri útgáfuna af sér.

Myndin, sem er m.a. skrifuð af Game of Thrones manninum David Benioff, verður frumsýnd 11. október hér á Íslandi, og annars staðar.