Anna fær stiklu í skugga ásakana

Lengi vel var hætta á að nauðgunarákæra á franska kvikmyndaleikstjórann Luc Besson yrði til þess að nýjasta spennutrylli hans, Anna, yrði endanlega pakkað ofaní skúffu, en nú þegar málinu hefur verið vísað frá, nánar tiltekið í febrúar sl., eftir níu mánaða rannsókn, gæti útlitið verið bjartara fyrir myndina.

Nokkrar aðrar konur hafa þó komið fram opinberlega og sakað leikstjórann um kynferðislega áreitni, en Lionsgate framleiðslufyrirtækið virðist samt sem áður vera klárt í að taka myndina af hillunni og hefja kynnningar á henni.

Af fyrstu stiklunni að dæma er um að ræða dæmigerða Besson spennumynd. Aðlaðandi kvenpersóna og harðsnúinn leigumorðingi er í forgrunni, persóna í ætt við Nikita eða Lucy, úr samnefndum eldri myndum Besson. Ómögulegt er hinsvegar að spá um það hvernig kvikmyndagestir taka myndinni, og hversu mikil áhrif ákæran og aðrar ásakanir hafa á fólk.

Rússneska fyrirsætan Sasha Luss fer með aðalhlutverkið en Luke Evans, Helen Mirren og Cillian Murphy leika einnig í þessari 30 milljón dollara mynd, sem frumsýnd verður í Bandaríkjunum 21. júní nk.

Opinber söguþáður er á þá leið að á bakvið töfrandi fegurð Anna Politova er leyndarmál sem mun leysa úr læðingi ótrúlegan styrk og hæfni til að verða einn hættulegasti leigumorðingi í heimi.

Besson skrifar einnig handrit ásamt því að leikstýra.

Sjáðu fyrstu stiklu hér fyrir neðan: