Risafrumsýningarhelgi hjá Captain Marvel

Marvel ofurhetjumyndin Captain Marvel með Brie Larson í titilhlutverkinu stefnir í risafrumsýningarhelgi í tekjum talið. Myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum og um allan heim, þar á meðal hér á Íslandi, nú um helgina. Útlit er fyrir að tekjur myndarinnar í Bandaríkjunum muni nema um 153 milljónum bandaríkjadala, en hún var sýnd á 4.310 stöðum í Bandaríkjunum yfir helgina.

Captain Marvel tekst meðal annars á við sjálfan Ronan the Accuser

Þá virðist myndin ætla að skila 302 milljónum dala í kassann til viðbótar vegna sýninga utan Bandaríkjanna, sem þýðir að heildartekjur myndarinnar yfir helgina alla munu nema um 455 milljónum dala, eða 55 milljörðum íslenskra króna.

Stærsta síðan Hin Ótrúlegu 2 var frumsýnd

Frumsýningarhelgi Captain Marvel, sem er 21. Marvel ofurhetjumyndin, mun, miðað við þessa niðurstöðu verða sú 18. tekjuhæsta í sögunni. Í 17. sæti er önnur Disney kvikmynd, Rogue One: A Star Wars Story, en hún rakaði saman 155,1 milljón dala á sinni fyrstu helgi í sýningum í Bandaríkjunum árið 2016. Captain Marvel mun samkvæmt nýjustu tölum verða tekjuhæsta mynd á frumsýningarhelgi síðan Hin Ótrúlegu 2 var frumsýnd með tekjur upp á 182 milljónir dala í júní sl., og tekjuhæsta staka Marvel mynd síðan Black Panther var frumsýnd, en tekjur hennar á frumsýningarhelgi í Bandaríkjunum námu 202 milljónum dala.

Hlustaðu á glænýjan hlaðvarpsþátt um Captain Marvel

Captain Marvel er upprunasaga ofurhetjunnar ms. Marvel sem síðar var nefnd Captain Marvel og er að margra mati svalasta og kraftmesta ofurhetja Avengers-gengisins. Myndin gerist á tíunda áratug síðustu aldar þegar Carol, sem er orrustuflugmaður í Bandaríkjaher, lendir ásamt félögum sínum og öðrum Jarðarbúum mitt á milli í stríði tveggja ógnvekjandi geimverutegunda sem berjast hatrammlega um alheimsyfirráð. Sú styrjöld hefði sennilega gert út af við lífið á Jörðinni ef Carol hefði ekki borið gæfu til að öðlast þá ofurkrafta sem gerðu henni kleift að breyta sér í Captain Marvel og um leið í bjargvætt mannkynsins.

Leikarar eru auk Larson þau Samuel L. Jackson, Ben Mendelsohn, Djimon Hounsou, Lee Pace, Lashana Lynch, Gemma Chan, Annette Bening, Clark Gregg og Jude Law.