Black Panther stjarna til Víetnam

Samkvæmt kvikmyndaritinu Variety þá hefur Black Panther leikarinn Chadwick Boseman skrifað undir samning um að leika í nýjustu kvikmynd hins Óskarstilnefnda leikstjóra Spike Lee, Da 5 Bloods, sem leikstjórinn hyggst gera fyrir streymisrisann Netflix.

Da 5 Bloods er drama og fjallar um fyrrum Víetnamhermenn sem snúa aftur í frumskóginn til að endurheimta sakleysið, sem þeir töpuðu í stríðinu.

Fyrir eru í leikhópnum Delroy Lindo, sem leikið hefur í þremur myndum Lee; Clockers, Crooklyn og Malcolm X, og franski leikarinn Jean Reno.

„Svo ég vitni í bróðurinn Jay-Z frá lýðveldinu Brooklyn, „Áfram gakk“, sagði Lee í Variety. Þetta er fyrsta mynd Lee fyrir Netflix.

Lee mun einnig framleiða myndina og skrifa handritið ásamt Kevin Willmott, en upphaflegt handrit er eftir þá Danny Bilson og Paul DeMeo og Matthew Billingsly.

Tökur kvikmyndarinnar gætu hafist í næsta mánuði, eða um leið og Lee lýkur kynningarstarfi fyrir síðustu mynd, BlacKkKlansman, en fyrir hana fékk hann í fyrsta skipti tilnefningu til Óskarsverðlauna sem leikstjóri. Myndin fékk einnig fimm aðrar tilnefningar, sem besta mynd, besti meðleikari ( Adam Driver ), besta frumsamda tónlist ( Terence Blanchard ), besta handrit eftir áður útgefnu efni ( Lee, Kevin Willmott) og besta klipping ( Barry Alexander Brown)

Boseman hefur átt góðu gengi að fagna að undanförnu, en hann lék aðalhlutverkið í hinni Óskarstilnefndu Black Panther, auk þess að leika í risa-ofurhetjusmellinum Avengers: Infinity War. Næsta kvikmynd hans, spennutryllirinn Bridges, kemur í bíó í sumar.