Blóðugur Ingvar á rölti í þoku

Fyrsta ljósmyndin úr nýrri íslenskri kvikmynd, Hvítur, hvítur dagur, var birt í dag á Facebook síðu myndarinnar.

Á myndinni sjáum við Ingvar E. Sigurðsson í hlutverki sínu í myndinni, haldandi á stúlku, sem leikin er af Ídu Mekkín Hlynsdóttur. Ekki verður betur séð en Ingvar sé alblóðugur, þar sem hann gengur þarna á miðjum vegi, í svartaþoku.  Við myndina stendur: „Fyrsta opinbera ljósmyndin úr Hvítur, hvítur dagur. Við erum að klippa þessa dagana, tilbúin á þessu ári!“

Hvítur, hvítur dagur gerist í litlu sjávarþorpi og segir frá lögreglustjóra sem byrjar að gruna mann í þorpinu um að hafa átt í sambandi við eiginkonu hans áður en hún dó í bílslysi. Grunur hans breytist fljótt í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem setja hann og hans nánustu í hættu. Þetta er saga um sorg, hefnd og skilyrðislausa ást.

Kvikmyndin er eftir Hlyn Pálmason, sem vakti mikla athygli fyrir síðustu mynd sína Vetrarbræður. 

Kíktu á myndina hér fyrir neðan: