Glass spáð velgengni í janúar

Fyrstu aðsóknarspár fyrir ráðgátuna Glass, framhaldsmynd leikstjórans M. Night Shyamalan af myndunum Unbreakable frá árinu 2000 og Split frá árinu 2016, gefa til kynna að Glass geti átt afbragðs frumsýningarhelgi, en kvikmyndin verður frumsýnd bæði hér á landi og í Bandaríkjunum þann 18. janúar nk.

Miðað við fyrstu spár í Bandaríkjunum þá má ætla að tekjur af fyrstu fjórum sýningardögum myndarinnar muni nema allt að 75 milljónum bandaríkjadala, að því er sagt er frá í Deadline.

Ef þessar spár ganga eftir þá mun Glass ná öðrum mestu tekjum kvikmyndar í sögunni á frumsýningarhelgi á MLK helginni svokölluðu í Bandaríkjunum ( Martin Luther King ) en tekjuhæsta kvikmyndin hingað til er kvikmynd Clint Eastwood, American Sniper, en hún rakaði saman 107,2 milljónum dala þessa helgi árið 2015.

Glass, sem Shyamalan skrifar einnig bæði handrit að og framleiðir, segir frá öryggisverðinum David Dunn, sem Bruce Willis leikur, sem notar ofurhæfileika sína til að elta uppi Kevin Wendell Crumb, sem James McAvoy leikur, en Crumb er geðtruflaður og býr yfir 24 persónuleikum. Persónan kom fyrst við sögu í Split, en sú mynd sló óvænt í gegn í janúar árið 2016, og námu tekjur af frumsýningarhelgi hennar um 40 milljónum dala. Samtals endaði hún á að afla 138,2 milljónum dala í tekjur í Bandaríkjunum og 278,4 milljónum dala um heim allan, en kostnaður við gerð myndarinnar var langtum minni, eða aðeins níu milljónir dala.

Í Glass bætist svo við persóna Samuel L. Jackson úr Unbreakable, illmennið Mr. Glass.