Resident Evil endurræsing fær leikstjóra og handritshöfund

The Resident Evil kvikmyndaserían verður endurræst innan skamms, að því er vefsíðan Den of Geeks greinir frá.

Variety kvikmyndaritið greinir frá því að leikstjóri verði Johannes Roberts, en hann leikstýrði síðast köfunartryllinum 47 meters down. Roberts hyggst sömuleiðis skrifa handritið, en tökur eiga að hefjast á næsta ári, með alveg nýju leikaraliði. Enginn frumsýningardagur hefur verið ákveðinn.

Deadline vefritið sagði frá því árið 2017 að James Wan ( Saw, The Conjuring 2 ) hefði samþykkt að framleiða myndina, eftir handriti Greg Russo ( Mortal Kombat ). Á þeim tíma var sagt að Russo og Wan myndu einungis vinna saman að fyrstu sex ( ! ) nýju Resident Evil myndunum.

Í nóvember sl. sagði Russo hinsvegar að hann hefði gefið verkefnið upp á bátinn.

„Ég vann að endurræsingunni í um eitt ár, og þá kom James Wan inn sem framleiðandi, og mínu hlutverki er eiginlega lokið, þannig að ég veit eiginlega ekki hvað ég á að gera við mína vinnu, ég skilaði inn uppkasti að handriti, og þeir voru ánægðir, en þeir munu á endanum ákveða framhaldið, en sem stendur kem ég ekkert nálægt kvikmyndinni.“

Óvíst er á þessari stundu hvort að Roberts muni henda uppkasti Russo í ruslið, og vinna handritið upp á nýtt, eða nýta sér handrit hans.

Den of Geek segir að það eina sem hægt sé að fullyrða um sé að það hafi nánast verið óumflýjanleg ákvörðun að búa til þessa mynd. Resident Evil: The Final Chapter var kannski sögð vera loka loka myndin, en þeir sem þekkja til hrollvekjugeirans, og mynda eins og Friday The 13th til að mynda, þá er það að kalla kvikmynd „The Final Chapter“ eða Lokakaflann, í raun staðfesting á því að ekki verði um endalok að ræða.

En hver getur svo sem áfellst kvikyndaverið. Resident Evil kvikmyndaserían hefur rakað saman um 1,2 milljörðum bandaríkjadala í aðgangseyri í gegnum árin, en myndaflokkurinn er sérstaklega vinsæll í Kína.