Annabelle 3 fær Warren hjónin

Deadline kvikmyndavefurinn greinir frá því að rannsakendurnir Ed og Lorraine Warren muni verða á meðal persóna í Annabelle 3 hrollvekjunni, sem er hluti af The Conjuring hrollvekjuseríunni, en hjónin eru þar í aðalhlutverki við að rannsaka yfirskilvitlega atburði.

Upphaflega var tilkynnt um gerð Annabelle 3 á afþreyingarhátíðinni Comic-Con í San Diego í Bandaríkjunum í sumar sem leið, og bjuggust margir einmitt við endurkomu Warren hjónanna, en nú hefur það verið staðfest opinberlega, samkvæmt Deadline.

Leikararnir Patrick Wilson og Vera Farmiga, snúa að sjálfsögðu aftur í hlutverkum hjónanna, og munu halda áfram rannsóknum sínum sem þau hafa stundað á hvíta tjaldinu frá árinu 2013 þegar fyrsta Conjuring myndin var frumsýnd.

Fregnir herma að þau Wilson og Farmiga verði þó ekki í aðalhlutverkum, heldur meira í stuðningshlutverki, sem er öfugt við hlutverk þeirra í Conjuring myndunum. Sagt er að þau verði reyndar í frekar litlu hlutverki í sögu þar sem yngsta dóttir þeirra, Judy, er í forgrunni, en með hlutverk hennar fer Captain Marvel leikkonan McKenna Grace, og barnfóstra hennar og frænka.

Þáttur Warren hjónanna í myndinni markar tímamót því þetta verður í fyrsta skipti sem þau birtast í hliðarmynd Conjuring heimsins. Til að mynda hafa þau ekki sést á hvíta tjaldinu síðan Conjuring 2 var frumsýnd árið 2016.

Eins og fyrr segir þá fjallar Annabelle 3 um Judy sem er í umsjá eldri frænku sinnar og vinkonu hennar, á meðan Ed og Lorraine Warren eru fjarverandi. Eftir að þau fara í burtu þá fer hin andsetna djöfladúkka Annabelle að gera talsverðan óskunda, þar sem hún liggur á sínum stað í litla hryllingssafninu á heimilinu.

The Nun handritshöfundurinn Gary Dauberman skrifar handritið, og er sagður munu leikstýra einnig. Dauberman skrifaði einnig hinar tvær Annabelle myndirnar, en síðasta mynd, Annabelle: Creation, sló í gegn.

Þá skrifar Dauberman handritið að Steven King myndunum IT og IT: Chapter 2.

Þó svo að The Nun hafi farið öfugt ofaní marga gagnrýnendur, þá endaði hún á því að verða tekjuhæsta hrollvekjan í Conjuring seríunni, með 359 milljónir dala í tekjur hingað til.

Annabelle 3 kemur í bíó á Íslandi 5. júlí á næsta ári, 2019.