Dinklage gerir gull úr heyi

Game of Thrones leikarinn Peter Dinklage verður að öllum líkindum dvergurinn Rumputuski, eða Rumpelstiltskin, í nýrri mynd sem Sony kvikmyndaverið er með í undirbúningi.

Rumputuski er persóna úr Grimms ævintýrum.


Heimildarmenn Variety kvikmyndaritsins segja að enn sé myndin frekar stutt á veg komin, og hún yrði ekki næsta verkefni Dinklage eftir að tökum á Game of Thrones lýkur. Sömu heimildir herma þó að verkefnið sé í hæsta forgangi hjá bæði leikaranum og myndverinu.

Söguþráður myndarinnar er enn á huldu, en ljóst er að kvikmyndin mun fjalla um Rumputuska, sem er dularfull ævintýrapersóna. Persónan kom fyrst fram á sjónarsviðið í Grimms ævintýrum þar sem sagði frá malara sem lýgur að konungi, og segir honum að dóttir hans geti ofið gull úr heyi. Kóngurinn kallar eftir stúlkunni, lokar hana inni í turnherbergi sem er fullt af heyi, og krefst þess að hún spinni gull úr öllu heyinu, að öðrum kosti missi hún höfuðið. Þegar hún hefur misst alla von um björgun, þá birtist dvergvaxin vera, þ.e. Rumputuski, sem spinnur gull úr heyinu í skiptum fyrir hálsmen hennar.

Þó að allt líti vel út í fyrstu, þá ætlar Rumputuski sér að fá annað og meira út úr viðskiptunum en bara hálsmenið.

Ótal tilbrigði hafa verið gerð við söguna í gegnum tíðina, og nú síðast birtist persónan í ABC þáttunum Once Upon a Time, þar sem Trainspotting leikarinn Robert Carlyle fer með hlutverkið.  Enn er óvíst hvort að sagan muni gerast í nútímanum, eða í upphaflegu sögusviði.

Dinklage sló met á dögunum þegar hann fékk sjöundu tilnefninguna til Emmy verðlauna fyrir Game of Thrones, en enginn leikari hefur fengið svo margar tilnefningar fyrir að leika sömu persónuna.

Á kvikmyndasviðinu þá sáum við leikarann nýlega í Óskarsverðlaunamyndinni Three Billboards Outside Ebbing Missouri, og í metsölumyndinni Avengers: Infinity War. Fljótlega má berja hann augum í HBO kvikmyndinni My Dinner With Herve.