RoboCop snýr aftur með District 9 leikstjóra við stýrið

MGM kvikmyndaverið er með í smíðum nýja RoboCop mynd, og hefur nú ráðið District 9 leikstjórann Neill Blomkamp, til að leikstýra myndinni, sem kallast RoboCop Returns, eða RoboCop snýr aftur. Samkvæmt Deadline kvikmyndavefnum þá vonast kvikmyndaverið til þess að myndin verði sú fyrsta í nýrri seríu, en upprunlega kvikmyndin eftir Paul Verhoven naut mikilla vinsælda þegar hún var frumsýnd árið 1987. Tekjur myndarinnar námu á sínum tíma 50 milljónum bandaríkjadala, og hún fékk þrjár Óskarstilnefningar, þar á meðal fyrir hljóðbrelluklippingu.

Upprunlegir handritshöfundar RoboCop, þeir Ed Neumeier og Michael Miner, eru á meðal framleiðenda. Justin Rhodes, sem var meðhöfundur Terminator myndarinnar sem Tim Miller er að gera um þessar mundir, mun skrifa handrit myndarinnar, byggt á upphaflegu framhaldshandriti að RoboCop 2 eftir þá Neumeier og Miner, en sú mynd varð aldrei að veruleika á sínum tíma.

Í upprunalegu myndinni lék Peter Weller aðalhlutverkið, hlutverk lögreglumanns sem stórslasaðist vægast sagt við skyldustörf, en er breytt í löggu sem er hálfur maður og hálfur vél. Verkefni þessarar nýju tegundar lögregluþjóns var svo að þurrka glæpahyski Detroit borgar af yfirborði Jarðar, eða þar um bil.

Inn í allt þetta fléttast að ekki náðist að þurrka alveg út allar minningar RoboCop úr fortíðinni, sem þjakar okkar mann.

MGM gerði RoboCop mynd árið 2014 með Joe Kinnaman í aðalhlutverkinu, en sú mynd náði litlu flugi á Bandaríkjamarkaði, en gerði betur utan Bandaríkjanna og þénaði 240 milljónir dala alþjóðlega. Myndin var sérstaklega sterk í Kína.

Blomkamp sló í gegn með geimverumyndinni District 9, en tekjur þeirrar myndar námu 210 milljónum dala á alþjóðavísu. Myndin fékk að auki fjórar Óskarstilnefningar. Í kjölfarið gerði hann myndir eins og Elysium og Chappie.  Síðustu ár hefur Blomkamp verið að smíða eigið kvikmyndaver, Oats Studios, í Vancouver, þar sem hann framleiðir stuttmyndir.