Heilaskaðaður býr til dúkkuveröld

Hvernig tekst maður á við gríðarlegt áfall? Ein leiðin er að hverfa inn í eigin heim, upplifa þar ævintýri og vera sjálfur aðal hetjan. Það er amk. það sem persóna Steve Carell gerir í nýjustu kvikmynd Robert Zemeckis, Welcome to Marwen, en fyrsta stikla úr myndinni er nýkomin út.

Kvikmyndin er gerð eftir heimildarmynd Jeff Malmberg frá árinu 2010, Marwencol, og bókinni Welcome To Marwencol frá árinu 2015, en þar segir frá endurhæfingu Mark Hogencamp, sem varð fyrir áverkum á heila, þegar fimm unglingar réðust á hann og börðu til óbóta með þeim afleiðingum að hann lá í dauðadái í níu daga á eftir.

Þegar Hogencamp rankaði við sér var hann algjörlega minnislaus, og mundi hvorki eftir vinum sínum né fjölskyldu, né nokkru öðru. Sem eins konar meðferð, þá byrjaði hann að búa til módel af belgíska þorpinu Marwencol á tímum Seinni heimsstyrjaldarinnar í garðinum á bakvið húsið sitt, og meðal annars gerði hann dúkkur sem litu út eins og hann sjálfur, vinir hans, og mörgum til mikillar undrunar, árásarmenn hans. Þetta bætti ástand hans allnokkuð, en varð einnig til þess að hann flúði inn í ævintýraheim þar sem urðu til ýmiss konar sögur þar sem dúkkurnar léku helstu hlutverk.

Carell leikur Mark en aðrir helstu leikarar eru Eiza González, Diane Kruger, Leslie Mann, Gwendoline Christie, Merritt Wever og Janelle Monáe.

Myndin kemur í bíó á Íslandi 11. janúar 2019.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: