Nýr Poirot fæddur í ABC morðunum

Þeir eru orðnir nokkrir leikararnir sem leikið hafa hlutverk belgíska spæjarans Hercule Poirot, út bókum breska glæpasagnahöfundarins Agatha Christie. Nú síðast var það til dæmis Kenneth Branagh sem lék Poirot í Murder on the Orient Express, sem frumsýnd var á síðasta ári.

Nú virðist sem nýr leikari sé að bætast í þennan fríða flokk, en John Malkovich hyggst bregða sér í hlutverkið innan skamms. Leikarinnn mun leika spæjarann í þriggja þátta seríu á BBC, sem gerð er eftir sögunni The ABC Murders.

Tökur eiga að hefjast i júní.

Harry Potter leikarinn Rupert Grint er einnig meðal leikara, í hlutverki rannsóknarlögreglumannsins Crome. Aðrir helstu leikarar eru Andrew Buchan (Broadchurch), Eamon Farren (Twin Peaks), Tara Fitzgerald (Game of Thrones), Bronwyn James (Harlots) og Freya Mavor (The Sense of an Ending).

The ABC Murders, sem kom fyrst út á bók árið 1936, fjallar um raðmorðingja sem gengur undir nafninu A.B.C. Fyrst lætur morðinginn til skarar skríða í Andover, þá í Bexhill og að lokum í Churston. Eftir því sem tala látinna hækkar, þá er eina vísbendingin eintak af The ABC Railway Guide, á hverjum morðstaðanna.

Alex Gabassi (The Frankenstein Chronicles) leikstýrir og Sarah Phelps (The Casual Vacancy) skrifar handrit.

Í yfirlýsingu sem send var til fjölmiðla segir Phelps m.a.: „ABC morðin eru hrottaleg saga um ofbeldi og lygar, skugga fortíðar, og blóðug morð sem á eftir koma. Í hjarta sögunnar er ein þekktasta persóna glæpasagnanna. Við teljum okkur þekkja Poirot, en þekkjum við Hercule?.“

Auk The ABC Murders þá mun Hercule Poirot birtast á ný í túlkun Kenneth Branagh í Death on the Nile, eða Dauðinn á Níl. Branagh leikstýrir einnig. Sagan fjallar um það þegar Poirot er á ferðalagi í Egyptalandi, en lendir í miðju atburða þegar ástarþríhyrningur fer úr böndunum.

Frumsýning Dauðans á Níl er áætluð í nóvember 2019.