Mamman í bekk með dóttur sinni

Fyrsta stikla og plakat úr nýjustu mynd gamanleikkonunnar Melissa McCarthy, Life of the Party, var birt nú í vikunni, en þarna er á ferðinni gamalkunnugt þema – fullorðinn einstaklingur fer aftur í skóla, og það hefur margt spaugilegt í för með sér, einkum þar sem þetta er sami skóli og dóttir McCarthy gengur í líka.

McCarthy skrifar handrit myndarinnar ásamt leikstjóranum Ben Falcone.

McCarthy leikur Deanna, heimavinnandi húsmóður sem þarf að endurskoða líf sitt eftir að eiginmaðurinn fer frá henni. Þar sem hún kláraði aldrei menntaskóla, þá ákveður hún bara að drífa sig í skólann, sem dóttir hennar Amanda er hreint ekki hrifin af, þar sem mamma verður í sama skóla og í sama bekk og hún.

En eins og við var að búast þá skemmtir Deanna, eða Dee Rock eins og hún byrjar að kalla sig í skólanum, sér stórvel, og endar með því að finna sjálfa sig.

Aðrir helstu leikarar eru Maya Rudolph, Matt Walsh, Julie Bowen og Gillian Jacobs. Frumsýningardagur í útlöndum er 11. maí, en myndin er ekki á áætlun íslensku bíóhúsanna ennþá amk.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: