Sannkallaður gullmoli

Í stuttu máli er „Three Billboards Outside Ebbing, Missouri“ afskaplega vel heppnuð mynd sem blandar listilega vel saman drama og gríni með góðum boðskap og frábærum leik.

Reið móðir, Mildred (Frances McDormand), leigir þrjú auglýsingaskilti á leið inn í bæinn Ebbing í Missouri og spyr á þeim hvers vegna yfirlögregluþjónninn Willoughby (Woody Harrelson) hafi ekki gert neitt af viti til að hafa uppi á morðingja dóttur sinnar. Skiltin vekja hörð viðbrögð í litla samfélaginu og ekki síst hjá hinum skapstóra og vitgranna Dixon (Sam Rockwell), lögreglumanni í bænum.

„Three Billboards Outside Ebbing, Missouri“ hefur verið að gera það gott á kvikmyndahátíðum víða og var sigurvegari á Golden Globe verðlaunahátíðinni nú fyrir stuttu. Án efa mun hún vera fyrirferðamikil á komandi Óskarskvöldi. Myndin er einfaldlega mjög vel heppnað drama sem kallar fram allar mögulegar tilfinningar og hughrif frá áhorfendum og veltir uppi stórum spurningum um reiði og sorg, fyrirgefningu, fordóma og mannlega veikleika og gerir það á máta sem er í senn drepfyndinn og grafalvarlegur. Það sem meira er; myndin finnur algert jafnvægi í að blanda þessum eiginleikum saman og heildarútkoman er ein af gullmolum ársins.

Sagan er góð og handritið er frábært. Persónurnar eru vel skrifaðar og útfærðar og gæðaleikarar í toppformi koma þeim einstaklega vel til skila. Samtöl og einræður eru listilega vel framsett á óborganlega fyndinn máta en einnig á ljúfsáran hátt sem fær áhorfandann til að flakka á milli hláturskasta og finna til með fólki í mikilli angist. „Three Billboards…“ spilar með mann að vild og mikla visku er að finna í raunum þessa fólks. Eins og góðri sögu sæmir þá leiðir þetta ferðalag þeirra til ákveðinnar sáttar við sjálft sig og eigin tilveru.

Óskarstilnefningarnar verða kynntar á morgun, 23 janúar, og nokkuð ljóst er að Frances McDormand og Sam Rockwell verða meðal keppenda. Það myndi síður en svo koma á óvart en sér í lagi minnir Rockwell á sig sem hinn afskaplega reiði og fordómafulli Dixon sem gengur í gegnum mesta þroskaferlið í myndinni. Það myndi samt vera synd að horfa fram hjá Woody Harrelson sem enn og aftur minnir rækilega á sig sem yfirlögregluþjónninn í bænum. Í raun leggja allir leikarar hér sitt á vogarskálarnar og litlu hlutverkin eru sérlega vel mönnuð; Peter Dinklage („Game of Thrones“) sem hálfgerður einfeldningur sem er skotinn í Mildred en á ekki séns, Caleb Landry Jones („X-Men: First Class“) sem yfirmaður auglýsingarstofunnar sem leigir Mildred skiltin, Zeljko Ivanek (atvinnu aukaleikari eftirminnilegur úr m.a. „24“) sem óbreyttur lögregluþjónn og John Hawkes („Identity“) sem fyrrum eiginmaður Mildred sem hefur náð sér í eina 19 ára vitgranna skvísu. Sterk heild þar sem hver þjónar sínu hlutverki á óaðfinnanlegan máta.

Handrit og leikstjórn eru í öruggum höndum Martin McDonagh („Seven Psychopaths“), kvikmyndataka og tónlist skila sínu (Abba lagið „Chiquitita“ kemur fram á góðum stað) og leikurinn gæti varla verið betri. Það væri synd að sleppa þessari.