Teiknar skopmyndir í áfengismeðferð

Nýjasta kvikmynd Gus Van Sant, Don’t Worry, He Won’t Get Far on Foot, verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni Sundance á föstudaginn næstkomandi. Myndin fer síðan í almennar sýningar vestanhafs þann 11. maí.

Leikstjórinn, sem er hvað þekktastur fyrir kvikmyndirnar Good Will Hunting og Milk, hefur verið með myndina í kollinum frá því á tíunda áratug síðustu aldar og var þá Robin Williams hugsaður í aðalhlutverkið. Joaquin Pheonix fer með hlutverkið nú þegar myndin hefur loksins verið gerð ásamt þekktum aukaleikurum á borð við Rooney Mara, Jonah Hill og Jack Black.

Myndin fjallar um áfengissjúkan mann, John Callahan, sem lendir í skæðu bílslysi og þarf að bíta í það súra epli að vera bundinn við hjólastól það sem eftir er. John ákveður að fara í meðferð og hittir þar nokkra furðulega kvisti sem hjálpa honum að finna tilgang og sigrast á Bakkusi. John byrjar að teikna skopmyndir sér til gamans en það verður svo á endanum aðal meðferðarúrræði hans.

Fyrsta stiklan úr myndinni var opinberuð fyrir skömmu og má sjá hana í spilaranum hér að neðan.