‘Guardians of the Galaxy Vol. 3’ frumsýnd 2020

Þriðja Guardians of the Galaxy-myndin verður frumsýnd árið 2020. Þetta staðfesti leikstjóri myndarinnar, James Gunn, á Twitter eftir að hann var spurður af einum aðdáenda myndanna hvort að von væri á nýrri mynd. Gunn hélt „spurt og svarað“ á reikningi sinum á samfélagsmiðlinum á dögunum og voru að vonum margir aðdáendur ánægðir þegar þetta var loks staðfest.

Gunn skrifaði og leikstýrði fyrstu tveim myndunum og snýr nú aftur til þess að klára þríleikinn.“Þegar allt kemur til alls þá er væntumþykja mín í garð Rocket, Groot, Gamora, Star-Lord, Yondu, Mantis, Drax og  Nebula – og margra annarra hetja –  meiri en þið getið ímyndað ykkur,” skrifaði Gunn á Facebook-síðu sína á síðasta ári. “Ég hef trú á því að fleiri ævintýri bíði þeirra, og þau eigi margt ólært um sjálf sig og alheiminn sem við búum í.” Gunn nefndi þar einnig að þessi þriðja mynd í seríunni muni gerast eftir atburðina í Avengers: Infinity War.

Guardians of the Galaxy Vol. 2 var ein aðsóknarmesta kvikmynd síðasta árs á Íslandi og sáu tæplega 37.000 manns hana í kvikmyndahúsum víðsvegar um landið.