Óvæntar vinsældir Jumanji

Ævintýramyndin Jumanji: Welcome to the Jungle smellti sér beint í annað sæti listans yfir aðsóknamestu kvikmyndirnar á Íslandi yfir síðustu helgi eftir að hún var frumsýnd þann 26. desember. Í Bandaríkjunum sáu fleiri myndina á nýársdag heldur en Star Wars: The Last Jedi og koma þessar vinsældir mörgum í opna skjöldu.

Jumanji var spáð ágætis göngu í kvikmyndahúsum en nýjustu tölur eru langt fram úr væntingum margra sem komu að myndinni. Flestir bíógestir fóru þó á Star Wars yfir helgina 29 – 31. des bæði hér heima og vestanhafs. Jumanji fylgir þó fast á eftir, en myndin halaði inn örlítið minna í Bandaríkjunum og á Íslandi milli jóla og nýárs.

The Last Jedi er því aðsóknamesta myndin á Íslandi þriðju helgina í röð. Í myndinni heldur Rey á vit ævintýranna ásamt Luke Skywalker, Leiu prinsessu og hinum dyggu Poe og Finn þar sem þau eiga eftir að uppgötva leyndardóm kraftsins og fortíð sem var þeim hulin. Með helstu hlutverk fara Daisy Ridley, Oscar Isaac, Gwendoline Christie, John Boyega, Carrie Fisher, Adam Driver og Mark Hamill.

Eins og fyrr segir þá fylgir Jumanji fast á eftir í öðru sæti listans. Í myndinni finna fjórir miðskólanemar gamlan tölvuleik og dragast inn í leikinn sem er með frumskógarþema, og breytast í þær persónur í leiknum sem þau vilja. Þau komast hinsvegar að því að þau eru ekki bara að spila leikinn – þau verða að lifa hann af.

Í þriðja sæti listans er teiknimyndin Ferdinand. Allt frá því að nautið Ferdinand var kálfur hefur hann verið ólíkur öðrum nautum. Á meðan aðrir kálfar vildu helst stangast á og létu sig dreyma um að komast í nautaatshringinn í Madrid hafði Ferdinand mun meiri áhuga á að njóta náttúrunnar, blómanna og litanna sem umhverfi hans býður upp á, auk þess sem hann getur ekki hugsað sér að gera flugu mein. En örlögin haga því samt svo að Ferdinand er fyrir misskilning sendur til Madridar til að berjast.