Mara er María Magdalena – Fyrsta ljósmynd

Þrátt fyrir að það hafi verið umdeild ákvörðun að ráða leikarana Rooney Mara og Joaquin Phoenix í kvikmynd um Maríu Magdalenu, eins og Empire greinir frá, þá hélt leikstjórinn Garth Davis sínu striki og gerði myndina, og nú hefur fyrsta ljósmyndin af Mara litið dagsins ljós, og hana má sjá hér fyrir neðan:

Handrit kvikmyndarinnar er eftir þau Helen Edmundson og Philip Goslett, en markmiðið var að myndin yrði  trúverðug og mannleg, og gefi góða mynd af einni torræðustu persónu í trúarsögunni.

Í myndinni kynnumst við Maríu sem ungri konu í leit að nýju lífi, og finnur það með því að fylgja Jesú Kristi frá Nasaret að málum.

Eins og fram kemur í Nýja testamenti Biblíunnar þá varð hún vitni að bæði krossfestingu og upprisu Jesú. Í guðspjöllunum fjórum er hún nefnd að minnsta kosti 12 sinnum á nafn, oftar en nokkur af lærisveinunum.

Chiwetel Ejiofor og Tahar Rahim leika einnig stór hlutverk en von er á myndinni í bíó í Bretlandi 6. mars nk.  Von er á fyrstu stiklu innan fárra daga.