Sló í gegn með hákarlatrylli

Þó að Steven Spielberg sé flestum að góðu kunnur er margt sem hinn almenni kvikmyndaáhugamaður veit ekki um kappann. Ný tveggja og hálfs klukkutíma löng heimildarmynd var sýnd á kvikmyndahátíðinni í New York, NYFF, á dögunum, en þar er varpað enn skýrara ljósi á líf og störf þessa vel þekkta og margverðlaunaða kvikmyndagerðarmanns.

Myndin heitir einfaldlega Spielberg, og er eftir Susan Lacy, og fjallar um líf og feril þessa risa í kvikmyndaborginni Hollywood. Í myndinni er rætt við marga vini og samstarfsmenn leikstjórans, fólk eins og Francis Coppola, Brian De Palma, George Lucas, Martin Scorsese, Tom Hanks, John Williams, Janusz Kamiński, Leonardo DiCaprio, Spielberg sjálfan og meira að segja foreldra hans Arnold og Leah.

Í opinberum sögurþræði myndarinnar segir að myndin fjalli um þróun listamannsins, allt frá því hann byrjaði að fikta við kvikmyndagerð barn að aldri, þar sem hann ólst upp í dæmigerðu úthverfi í Bandaríkjunum, og þar til hann skaust upp á stjörnuhimininn með hákarlatryllinum Jaws. Þá er fjallað um þátt hans í kvikmyndastúdíóinu Dreamworks, svo fátt eitt sé nefnt. Allan tímann hefur Spielberg nálgast hvert verkefni eins og það væri hans allra fyrsta

Sem fyrr sagði var myndin sýnd á NYFF og var auk þess sýnd á HBO sjónvarpsstöðinni bandarísku í gær, 7. október.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og plakat þar fyrir neðan: