Heimurinn varð eins og kvikmyndin

„Ástandið í heiminum hefur leitað enn meira í sömu átt og ég skrifaði,“ segir handritshöfundurinn Stephen Schiff í samtali við The Hollywood Reporter, en Schiff skrifaði handrit spennumyndarinnar American Assassin sem sýnd er í kvikmyndahúsum hér á landi um þessar mundir.

„Þannig að myndin virðist vera í takt við tímana sem við lifum á í dag, og ég er ánægður með það.“

[Varúð: Í fréttinni eru spilliefni ( spoilers ) úr kvikmyndinni og bókinni.]

Myndin, sem leikstýrt er af Michael Cuesta, er byggð á samnefndri skáldsögu Vince Flynn, en hann skrifaði heilan bókaflokk um fulltrúann Mitch Rapp, sem berst gegn hryðjuverkaöflum í heiminum.

En það eru nokkur mikilvæg atriði sem greinir á milli kvikmyndarinnar, þar sem Dylan O´Brien fer með hlutverk Mitch, og bókarinnar.  „Myndin er mjög ólík bókinni,“ segir Schiff. „Það er til dæmis engin sprengja í bókinni. Og það er engin persóna eins og Ghost í bókinni. Flest af því sem er í kvikmyndinni er ekki í bókinni.“

Það sem helst greinir á milli er atburðurinn í byrjun myndarinnar, sem verður til þess að Mitch ákveður að helga líf sitt baráttu gegn hryðjuverkum. Í bókinni er um að ræða Lockerbie tilræðið frá árinu 1988, en í kvikmyndinni er búið að skipta yfir í hryðjuverkaárás á ströndu.

„Við ætluðum pottþétt ekki að nota Lockerbie sprenginguna, þannig að ég varð að gera eitthvað sem væri meira nær samtímanum sem væri samt álíka hryllilegt.“

Hér má lesa viðtalið við Schiff í heild sinni og fyrir neðan er stikla úr myndinni: