Egerton eltir eineygðan stríðsfréttaritara

Kingsman: The Golden Circle leikarinn Taron Egerton hefur verið ráðinn í myndina A Private War eftir Matthew Heineman, en í henni leikur Gone Girl leikkonan Rosamund Pike hinn þekkta stríðsfréttaritara Marie Colvin.

Kvikmyndin gengur nú kaupum og sölum á kvikmyndahátíðinni í Toronto sem nú stendur yfir, og Deadline greinir frá. Pike mætir sjálf á hátíðina til að kynna nýjustu mynd sína Hostiles. 

Myndin, sem er spennutryllir, gerist á helstu átakasvæðum heimsins, þar sem Colvin hélt sig jafnan og gerði þar garðinn frægan.  Hún var þekkt fyrir að eiga jafn létt með að blanda geði við elítuna, eins og að horfast í augu við stríðsherra eða flýja undan byssukúluregni.

Köllun hennar var að upplifa og segja frá aðstæðum fólks á stríðshrjáðum svæðum, en löndin sem hún starfaði í voru meðal annars Chechnya, Kosovo, Sierra Leone, Zimbabwe og Sri Lanka, en á síðasttalda staðnum missti hún annað augað árið 2001 og gekk jafnan með augnlepp eftir það.

Hún lést árið 2012 í eldflaugaárás í Sýrlandi, en þar starfaði hún fyrir breska blaðið Sunday Times.

Egerton mun leika blaðamann með hernaðarbakgrunn, sem fylgir Colvin í hvert verkefnið á fætur öðru.

Tökur myndarinnar hefjast í nóvember nk.  Arash Amel skrifaði handritið uppúr greininni Marie Colvin’s Private War, eftir Marie Brenner sem birtist í ágústshefti Vainity Fair árið 2012.

Leikstjóri er Matthew Heinemen, sem gerði hina Óskarstilnefndu Cartel Land.