„Ný“ mynd um dýrlinginn Simon Templar

Ný mynd, ef svo má segja, um dýrlinginn Simon Templar skaut upp kollinum á Netflix nýverið og ekki er ólíklegt að það hafi komið unnendum þessa sögufræga breska karakters ánægjulega á óvart, ekki síst fyrir þá staðreynd að upprunanlega dýrlingnum, Sir Roger Moore, bregður fyrir í einu atriðinu.

Árið 2013 var gerð tilraun til að búa til nýja þáttaseríu um Simon Templar og búinn var til „Pilot“, eða prufuþáttur, sem hlaut ekki náð fyrir augum valinna áhorfenda og ekkert varð úr frekari ævintýrum hans. Leikarinn Adam Rayner lék titilhlutverkið og í aukahlutverkum voru m.a. Eliza Duzhku („Buffy the Vampire Slayer“), James Remar („Dexter“), Thomas Kretschmann („The Pianist“) og gamli dýrlingurinn Ian Ogilvy sem einmitt lék Simon Templar í þáttaseríunni „Return of the Saint“ sem gekk í aðeins eitt ár frá 1978-1979.

Þar sem ákveðið var að „pikka“ þessa þætti ekki upp fór prufuþátturinn aldrei í loftið en var samt sem áður á ferilskrá allra leikaranna. Seinna var ráðist í endurtökur og aðeins bætt við efniviðinn svo hægt væri að gefa myndina út sem staka sjónvarpsmynd og nú er hún loksins aðgengileg í gegnum streymisveituna.

Erfiðlega hefur gengið að endurvekja Simon Templar frá því að Sir Roger Moore lék hann í sjö þáttaröðum frá árunum 1962-1969. Einungis ein sería var framleidd af „Return of the Saint“ með Ian Ogilvy og árið 1997 lék Val Kilmer titilhlutverkið í stórmyndinni „The Saint“ sem gekk illa í miðasölu og fékk slæma útreið frá gagnrýnendum.

Nýi dýrlingurinn er ágætis afþreying og hægt er að sjá í grunninn hvaða hugmyndir handritshöfundar höfðu fyrir áframhaldandi söguþráð. „Nostalgíufaktorinn“ er töluverður þar sem tveir fyrrverandi dýrlingarnir eru til taks,  margt er lofandi og hefði getað orðið að ágætis sjónvarpsefni.

Þess má geta að Ian Ogilvy veitti viðtal sem birt var á kvikmyndir.is í febrúar síðastliðnum.