Heill sé þér Caesar

Í stuttu máli er „War For the Planet of the Apes“ hreint stórkostleg mynd í alla staði.

Að loknum viðburðum í „Rise of the Planet of the Apes“ (2011) og „Dawn of the Planet of the Apes“ (2014) situr leiðtogi apanna, Caesar (Andy Serkis), uppi með stríð milli manna og apa og reynir hvað hann getur að stuðla að friði og takmarka drápin á báðum vettvöngum. Herskár ofursti (Woody Harrelson) kemur Caesar að óvörum í fylgsni apanna og veldur honum miklum persónulegum missi og kemst svo í burtu. Leiðtogi apanna hyggur á hefndir og á leið sinni að höfuðstöðvum ofurstans verður hann vís um mikið og hættulegt ráðabrugg ofurstans og allir sem eru Caesar kærir eru í hættu.

Reynist „War For the Planet of the Apes“ vera lokamyndin í þessari apaseríu er með sanni hægt að segja að sú besta kom síðast. Grunnurinn var vel lagður í „Rise“ þar sem Caesar öðlaðist greind og hin mikla og brothætta togstreita milli manna og apa komst gríðarlega vel til skila í hinni mögnuðu „Dawn“ en þar glímdi mannfólkið einnig við útrýmingarhættu vegna veirusýkingar. Þar þróaðist Caesar í að verða valdamikill leiðtogi apanna og beitti hann mannúð og skynsemi eftir fremsta megni til að lifa í sátt við mannfólkið en einn af hans eigin, Koba, rauf þann sáttmála og alls herjar stríð var leyst úr læðingi. Í „War“ hafa áralangar tilraunir Caesar til að efna til friðar og stemma stigu við blóðsúthellingum tekið sinn toll og eftir aðgerðir ofurstans finnur hann fyrir miklum hefndarþorsta og virðist vera tilbúinn að fyrirgera gildum sínum til að gera upp sakir.

Ekki aðeins leggur „War“ óaðfinnanlega grunninn að hinni sígildu „Planet of the Apes“ (1968) heldur einnig að framhaldinu, „Beneath the Planet of the Apes“ (1970). Eins og raunin er með apana þá er sagan um ofurstann og herdeild hans ekki síður mikilvægur partur af myndinni og hann er ekki allur þar sem hann er séður. Frábærum efnistökum ber að hrósa en persónusköpunin hér er hreint frábærlega vel af hendi leyst og áhorfendum er ekki boðið upp á einfalda baráttu góðs og ills heldur margþætta og átakanlega harmsögu sem einkennist af fordómum, hræðslu og mikilli reiði en þessi þemu hafa verið gegnumgangandi í þessum magnaða þríleik.

Svo eru það tæknibrellurnar. Góðar myndir styðjast við tæknibrellur til að betrumbæta sögu en lakari myndir sníða söguna að tæknibrellunum. Fyrri staðhæfingin á við hér og taka þarf sérstaklega fram hversu ótrúlega vel „War“ lítur út í alla staði. Það er hreint magnað hvernig aparnir eru ljóslifandi persónur fyrir áhorfandanum og gæðaleikarar standa sig hreint frábærlega í hlutverkum sínum. Andy Serkis vinnur enn einn leiksigur og gæðaleikarinn Woody Harrelson minnir rækilega á sig í hluverki ofurstans. Steve Zahn stendur sig einnig með stakri prýði en í svona grafalvarlegri mynd er gott að geta hlegið aðeins en það getur verið vandasamt verk að lauma húmor inn á milli. Það virkar vel hér.

Hugsanlega mætti sneiða örlítið af myndinni án þess að hún glataði áhrifamætti sínum en það er erfitt að gagnrýna „War“ fyrir lengdina þegar stígandinn er jafn góður og raun ber vitni. Hasaratriðin eru færri en margir gætu haldið en þau eru mjög kraftmikil og vel framkvæmd þegar þau skjóta upp kollinum. Tónlistin, eftir Patrick Doyle, er sérlega áhrifamikil hvort sem um er að ræða þrumuslátt til að keyra upp púlsinn eða hæglát píanóstef sem undirstrika harmleikinn og eymdina í þessari hrörlegu framtíð.

Það er sama hvert er litið; „War For the Planet of the Apes“ skorar hátt á öllum kvikmyndaskalanum. Uppi eru vangaveltur um frekari myndir í bálkinum (og meira að segja nokkrir vefmiðlar staðhæfa að fjórða myndin muni líta dagsins ljós) en hálfpartinn vonar maður að „War“ verði lokakaflinn. Það verður erfitt að toppa hana.