Kvikmynda Karlar eru frá Mars, konur eru frá Venus

Hver man ekki eftir sjálfshjálparbókinni Menn eru frá Mars, konur eru frá Venus eftir Dr. John Gray sem kom út á Íslandi árið 1995 og seldist í bílförum? Nú geta menn byrjað að láta sig hlakka til því framleiðslufyrirtækið Legendary Entertainment hefur keypt kvikmyndaréttinn að bókinni, að því er heimildir kvikmyndaritsins Variety herma.

Stefnt er að því að gera mynd sem höfðar til hins vestræna heims, en einnig á að þróa útgáfu af myndinni sérstaklega fyrir kínverska markaðinn.

Samkvæmt heimildum Variety þá er bókin svo vinsæl í Kína að John Gray, hefur farið ófáar ferðir til landins í gegnum árin til að kenna námskeið sem byggja á bókinni.

Men are from Mars, Women are from Venus: A Practical Guide for Improving Communication and Getting What You Want in Your Relationships, eins og bókin heitir á frummálinu, kom fyrst út árið 1992 og varð strax metsölubók, og síðan söluhæsta bók tíunda áratugar síðustu aldar, með hörðum kili.

Í myndinni er ræddur sálfræðilegur munur á kynjunum, útfrá þeim útgangspunkti að menn og konur séu frá mismunandi plánetum.

Kvikmyndaver hafa lengi klórað sér í hausnum yfir því hvernig væri hægt að gera kvikmynd eftir bókinni, allt frá því að bókin sló í gegn. Lionsgate framleiðsluverið hafði reynt lengi, en að lokum gekk kvikmyndarétturinn til baka til Gray í fyrra.

Þó engan söguþráð sé almennt að finna í sjálfshjálparbókum, þá hefur það ekki fælt kvikmyndaverin frá því að kvikmynda bækurnar, en sem dæmi um kvikmyndir sem gerðar hafa verið eftir sjálfshjálparbókum eru He’s Just Not That Into You og How to Lose a Guy in 10 Days.