Brotlenda í óbyggðum – Fyrsta stikla úr The Mountain Between Us

Eftir ýmsar þreifingar síðustu ár, með leikurum á borð við Michael Fassbender, Charlie Hunnam, Margot Robbie, Rosamund Pike og fleirum, og leikstjóranum Gerardo Naranjo,  þá varð það á endanum þannig að tökur hófust á kvikmyndinni The Mountain Between Us seint á síðasta ári, með Hany Abu-Assad í leikstjórastólnum, og þau Kate Winslet og Idris Elba í aðalhlutverkum. Nú er von á myndinni í bíó í haust, og fyrsta stiklan er komin út.

Um er að ræða mynd sem fjallar um fólk sem lendir í lífsháska í óbyggðum, ekki ósvipað því og Daniel Radcliffe gerir í Jungle, sem við sögðum frá á dögunum, nema að þau lenda í flugslysi uppi í snævi þöktum fjöllum, á meðan Radcliffe var týndur í frumskógum Bólivíu.

„Ég held að bjartsýni og von sé það tvennt sem er mikilvægast til að lifa af,“ sagði leikstjórinn við bandaríska blaðið USA Today. „Og halda áfram að lifa þó svo að óheppnin elti þig. Ef þú gefst upp fyrir óheppninni þá deyrðu. En ef þú berst gegn henni, þá áttu betri möguleika á að lifa af og gera líf þitt betra.”

Aðrir helstu leikarar eru Beau Bridges og Dermot Mulroney.

Söguþráðurinn er eitthvað á þá leið að eftir að lítil flugvél þeirra brotlendir, þá þurfa maður og kona sem ekki þekktust áður, að bindast traustum böndum til að lifa af í óbyggðum. Þegar þau átta sig á því að enga hjálp er að fá, þá fara þau af stað sjálf, og ganga hundruði kílómetra, staðráðin í að lifa þessa þrekraun af.

Myndin verður frumsýnd 20. október nk. í Bandaríkjunum.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: