Oblivion leikstjóri líklegastur í Top Gun 2

Samkvæmt heimildum Variety kvikmyndaritsins er Joseph Kosinski líklegastur til að leikstýra nýju Top Gun myndinni, Top Gun 2. Tom Cruise staðfesti í vikunni að Top Gun 2 yrði gerð, en Kosinski leikstýrði Cruise í Oblivion. 

Í frétt Variety segir að Cruise hafi hitt nokkra leikstjóra á undan, og meðan hann var við tökur á Mission Impossible 6 í Lundúnum, til að tryggja að framleiðsla Top Gun 2 gæti hafist strax að loknum þeim tökum.

Oblivion var risasmellur hjá Cruise og Kosinski, en tekjur myndarinnar á heimsvísu námu 286 milljónum bandaríkjadala. Því má segja að það hafi aðeins verið tímaspursmál hvenær þeir tveir myndu leiða saman hesta sína að nýju.

Framhald Top Gun hefur lengi verið á dagskrá Cruise, en líkur á því að verkefnið yrði að veruleika hafa aukist smátt og smátt síðustu ár, sérstaklega eftir að Jungle Book höfundurinn Justin Marks var fenginn til að skrifa uppkast að handriti.

Sagt er að framhaldsmyndin muni gerast í heimi þar sem drónatækni og fimmta kynslóð orrustuþotna eru komin fram á sjónarsviðið.  Lítið fleira er vitað um söguna, en Val Kilmer hefur sagt frá því opinberlega að rætt hafi verið við hann um að mæta aftur í hlutverki Iceman, og leika þar á móti Tom Cruise í hlutverki Maverick.

Kosinski vann nýverið að slökkviliðsspennumyndinni Granite Mountain, með Miles Teller og Josh Brolin. Við sjáum Cruise næst í The Mummy nú í byrjun júní.