Stýrir elskendum með harðri hendi

Ný stuttmynd Andra Freys Ríkarðssonar, Ólgusjór, sem stefnt er á að taka upp í sumar, fjallar um unga elskendur sem starfa saman á litlum bát fyrir utan Snæfellsnes. Yfirmaður þeirra stýrir þeim með harðri hendi í gegnum talstöð á meðan margt leynist undir yfirborðinu.

Það er ungt framleiðslufyrirtæki, Behind the Scenes, sem framleiðir myndina.  ,,Andri Freyr leitaði til okkar í janúar 2015 og sagði okkur frá stuttmynd sem hann vildi gera og þar með hófst ferðalag þessa verkefnis,“ segir Ásþór Aron Þorgrímsson í fréttatilkynningu.

Hann segir að sagan sé einlæg, og myndin sé  umkringd metnaðarfullu og duglegu fólki á öllum sviðum kvikmyndagerðar.

,,Ef fólk hefur sögu sem það vill segja og hefur metnaðinn og viljann til að ýta því í framkvæmd er ekkert sem getur stoppað það ferli nema fólkið sjálft”.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands og hefur fengið vilyrði fyrir styrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Leikarar verða þau Hafdís Helga Helgadóttir sem fer með hlutverk Telmu í myndinni og Eysteinn Sigurðarson sem fer með hlutverk Baldurs, ásamt Arnari Jónssyni sem fer með hlutverk Geirs.


Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins á heimasíðu fyrirtækisins, á Facebook og Instagram.