Karlmenn í ástarsambandi – Rökkur heimsfrumsýnd í Gautaborg

Ný íslensk kvikmynd, Rökkur, verður heimsfrumsýnd þann 4. febrúar næstkomandi á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í Svíþjóð. Myndin verður lokamynd hátíðarinnar.

Rökkur er dramatískur sálfræðiþriller með hrollvekjandi ívafi og ein fyrsta íslenska kvikmyndin sem fjallar alvarlega um ástarsamband tveggja manna, að því er segir í frétt frá framleiðanda myndarinnar.

rift_still1

Leikstjóri er Child Eater leikstjórinn Erlingur Óttar Thoroddsen.

Í stuttu samtali við Kvikmyndir.is sagði Erlingur að enn væri verið að finna hentugan frumsýningardag á Íslandi, en vonandi myndi það skýrast á næstu dögum. „En það verður einhvern tímann í ár,“ sagði Erlingur.

Söguþráður myndarinnar er þessi: Nokkrum mánuðum eftir að þeir hættu saman, vaknar Gunnar upp við skringilegt símtal frá fyrrverandi kærastanum sínum, Einari. Einar segir að hann fái það stundum á tilfinninguna að hann sé ekki einn þegar hann er staddur í Rökkri, fjölskyldusumarbústaðnum sem stendur undir Snæfellsjökli. Gunnar keyrir af stað upp á nesið til þess að sjá um hvað málið snýst, og kemst fljótt að því að ekki er allt sem sýnist.

rift_still5

Björn Stefánsson og Sigurður Þór Óskarsson fara með aðalhlutverkin í Rökkri. Leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar er Erlingur Óttar Thoroddsen, en þetta er önnur kvikmynd hans í fullri lengd á eftir íslensk-amerísku hrollvekjunni Child Eater, sem var sýnd á Íslandi síðasta haust. Erlingur framleiðir myndinna einnig ásamt Baldvin Kára Sveinbjörnssyni og Búa Baldvinssyni. Sena sér um dreifingu á myndinni á Íslandi.

rift_still2

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Gautaborg er stærsta kvikmyndahátíð Norðurlandanna og einn mikilvægasti viðburður fyrir kvikmyndaiðnaðinn í Skandinavíu. Markmið hátíðarinnar, sem fagnar í ár 40 ára afmæli sínu, er að kynna mikilvægar og áhugaverðar kvikmyndir bæði fyrir dreifingaraðilum og almennum áhorfendum. Á hátíðinni eru sýndar í kringum 450 kvikmyndir frá öllum heimshornum.

rokkur-poster