Hollywood drap Green Lantern

Áður en Ryan Reynolds sló í gegn í risasmellinum Deadpool fyrr á þessu ári, þá hafði hann reynt sig í hlutverki annarrar ofurhetju, Green Lantern, árið 2011, með heldur verri árangri.

green-lantern

Í nýju samtali við Entertainment Weekly ræðir Reynolds um muninn á þessum tveimur myndum sínum.

„Deadpool vissi alltaf hver hún var,“ segir Reynolds. „Með Green Lantern, þá held ég enginn hafi náð að átta sig á því nákvæmlega hverskonar mynd þetta var. Þá er ég ekki að segja að allir þeir mörgu sem lögðu hönd á plóg við þá mynd hafi ekki staðið sig eins vel og þeir gátu.“

„Myndin varð einnig fórnarlamb Hollywood ferlanna – sem er plakat fyrst, frumsýningardagur næst, og handritið síðast.“

„Á þessum tíma þá var þetta risastórt tækifæri fyrir mig, þannig að ég var spenntur að prófa og taka þátt. Ég skrifaði samt bréf til Fox [kvikmyndaversins] rétt áður en ég tók ákvörðun um Green Lanter. Ég spurði í eitt síðasta skipti enn, líkt og brúðgumi spyr við altarið, „Viltu verða eiginkona mín?“ og þeir sögðust ekki geta samþykkt að gera Deadpool. Ástæðurnar voru margar, og það gekk ekki upp.“

Sögur eru á sveimi um að Green Lantern muni birtast í DC Comics ofurhetjumyndinni Justice League sem er væntanleg í bíó á næsta ári, þar sem Lone Ranger leikarinn Armie Hammer myndi leika hetjuna.

Næsta mynd Reynolds er Deadpool 2, en myndin hefur verið nokkuð í fréttum vegna fráhvarfs leikstjórans Tim Miller, en í stað hans tók John Wick leikstjórinn David Leitch við leikstjórnarkeflinu.